Gullver með fullfermi eftir fjögurra daga túr

Deila:

Ísfisktogarinn Gullver kom til heimahafnar á Seyðisfirði í gær með fullfermi eða 119 tonn. Landað verður úr skipinu í dag.

Þetta kemur fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra. Hann segir að skipið hafi verið fjóra daga að veiðum, í blíðuveðri. Veitt hafi verið í Berufjarðarál og í Hvalbakshallinu. Loks hafi verið kíkt í Lónsdýpið. „Aflinn var mjög blandaður en mest þorskur. Nú er stærri fiskur farinn að sjást á þessum miðum eins og gerist á hverju vori. Við lögðum dálitla áherslu á að ná í karfa. Það hefur ekki verið mikill karfi fyrir austan en nú urðum við ágætlega varir við hann og fengum rúmlega 20 tonn,“ er haft eftir Steinþóri.

Gullver heldur til veiða á ný í kvöld.

Deila: