Segir ósanngjarnt að breyta strandveiðikerfinu í sumar

Deila:

„Mikilvægt er að byggja veiðistýringu sumarið 2023 á óbreyttu veiðikerfi. Ósanngjarnt er að snúa öllu á hvolf samtímis og unnið er að framtíðarfyrirkomulagi strandveiða.” Þetta segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda í grein í Morgunblaðinu í dag. Í grein sinni ræðir hann um stjórnarfrumvarp um breytingar á strandveiðum sem eru til þess fallnar að jafna stöðu strandveiða á milli landshluta.

Örn segir að verði frumvarpið að lögum muni það gerbreyta umhverfi strandveiðisjómanna. Veiðiheimildum verði skipt í landshlutakvóta miðað við fjölda báta á hverju svæði og svo á hvern mánuð. Veiðar verði stöðvaðar þegar sýnt þyki að aflinn fari umfram ráðstöðfun hvers mánaðar.

Þess má geta að strandveiðisjómenn á Norður- og Austurlandi hafa kallað stíft eftir þessum breytingum, enda kláraðist potturinn í fyrra þegar besti tími strandveiða var fram undan á þeim svæðum. Svæði A, Vesturland, hefur borið áberandi mest úr býtum undanfarin ár. Þar er besti tími strandveiði fyrrihluti sumars. Potturinn kláraðist 21. júlí í fyrra.

Örn fjallar í grein sinni um víðtækan stuðning þjóðarinnar við eflingu strandveiða, stuðning sem birtist í könnun sem framkvæmd var fyrir Auðlindina okkar. Örn bendir á að ráðherra hafi boðað þessar breytingar áður en ljóst var hver niðurstaða verkefninsins Auðlindin okkar yrði. Hann segir að þjóðin hafi þannig tekið ómakið af bæði ráðuneytinu og samráðsnefndinni. Efla beri strandveiðar.

Deila: