Feðgar á sinni fyrstu strandveiðivertíð

Deila:

Strandveiðar hófust 2. maí síðastliðinn. Feðgarnir Þórir Örn Jónsson og Jón Albert Jónsson festu ásamt Ágústi Jóhannessyni kaup á Skel í vetur og eru á sinni fyrstu strandveiðivertíð. Báturinn heitir Digri NS-060 og er fimm brúttótonn. Hann er búinn nýlegri vél og gengur að sögn eigendanna 12 til 13 mílur.

Þórir Örn, sonur Jóns, flutti á Bakkafjörð með eiginkonu og tveimur börnum fyrir fjórum árum. Hann hugðist stoppa stutt en annað hefur komið á daginn. „Það er bara svo gott að vera hérna,“ útskýrir hann. Þórir rekur Bjargið ehf. stærstu fiskvinnsluna í þorpinu og reiknar sjálfur með að vera mestmegnis í landi og taka á móti fiskinum enda er í mörg horn að líta í vinnslunni. Allt að 180 tonn fara í gegn um vinnsluna á mánuði; fiskur frá Vopnafirði, Bakkafirði, Þórshöfn og Raufarhöfn, auk þess sem þeir taka á móti grásleppuhrognum. „Við fáum sértækan byggðakvóta sem tryggir okkur hráefni út október eða fram í nóvember,“ segir Þórir um starfsemina. Bjargið veitir á bilinu 8 til 15 manns atvinnu, eftir árstíma, og er langstærsti vinnustaðurinn á Bakkafirði.

Í fyrsta sinn á smábát

Faðir Þóris, Jón Albert er enginn nýgræðingur á sjó. Hann fór fyrst á sjóinn 14 ára gamall hefur stundað sjómennsku, mest á togurum í um þrjá áratugi. Hann er hins vegar nýliði þegar kemur að trillum. Þegar viðtalið var tekið voru strandveiðarnar í þann mund að hefjast. „Ég viðurkenni að ég er orðinn mjög spenntur,“ segir hann aðspurður um vertíðina. Hann nýtti veturinn vel til undirbúnings. „Ég tók smábátanámið og kláraði það í apríl.“

Maí og júnímánuðir eru erfiðir fyrir austan enda gengur vænn fiskur ekki á miðin fyrr en líður á sumarið. „Júlí og ágúst eru mánuðirnir sem við viljum fá. Við eigum mikið undir því að fá að veiða á þeim tíma,“ segir Jón en þegar þetta er skrifað ríkir óvissa um hvort matvælaráðherra muni gera breytingar á reglugerð um strandveiðar.

Í fyrra voru veiðar stöðvaðar 21. júlí, þegar besti tíminn var að fara í hönd á austanverðu landinu. Hann segir að þessi vinnubrögð og óvissan sem mönnum sé boðið upp á sé forkastanleg.

Jón segir að í mörg horn sé að líta þegar maður rær smábát. Starfið sé mjög frábrugðið því að starfa á togara. „Ég hef farið í túr með öðrum á handfæri og er búinn að prófa bátinn okkar. Þetta heillar mig mjög mikið, ekki síst útiveran og einveran.“

Greinin birtist fyrst í Ægi

Deila: