Nýja DNG-vindan eftirsótt

Deila:

„Við höfum afgreitt um 100 eintök af nýju R1 færavindunni hér á Íslandsmarkaði og keppumst þessar vikur við að afgreiða vindur og ganga á lista kaupenda. Fyrstu eintökin fóru í báta í fyrrasumar og við höfum ekki heyrt annað en vindan hafi almennt fengið mjög góðar viðtökur. Einn strandveiðimaður sem er með fjórar vindur á bát sínum fullyrti við mig að R1 vindurnar fiskuðu betur en C6000 vindurnar hans gerðu. Það er einmitt markmiðið hjá okkur; að koma fram með nýja kynslóð sem skilar okkur fram á veg í þróun búnaðarins,“ segir Ármann H. Guðmundsson, þjónustustjóri DNG.

Færavindur DNG hafa leikið stórt hlutverk á undanförnum árum í framþróun handfæraveiða og eru mikil tímamót nú þegar fyrirtækið er komið fram með nýja kynslóð af vindu sem heitir R1 en næsta kynslóð á undan var C6000-vindan sem kom fyrst á markað árið 1995.

Vinda hlaðin tæknilegum nýjungum „Það er ekkert launungarmál að truflanir á framleiðslu íhluta í heiminum vegna Covid faraldursins töfðu fyrir okkur í þróun og framleiðslu nýju vindunnar en við erum í óða önn að vinna þær tafir upp. Síðan er stór hópur smábátaeigenda erlendis
sem bíður eftir að fá vindur afgreiddar þannig að það er mikill áhugi á markaðnum fyrir R1 vindunni,“ segir Ármann.

Og kannski ekki að furða í ljósi þess hversu mikil byltingin með R1 kynslóðinni er. Möguleikar koma til með að verða til að tengjast henni og stjórna með snjalltækjum, fjartengjast henni til viðhalds og uppfærslu hugbúnaðar, vindan er með nýju stýrikerfi, kominn er litaskjár á vinduna, takkaborð er breytt og í henni eru tengimöguleikar fyrir WiFi sem nýtist til hugbúnaðaruppfærslu. GPS og Bluetooth tengimöguleikar eru enn sem komið er á vinnslustigi.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði af Ægi.

Deila: