„Rakinn dónaskapur að gera þetta með þessum hætti“

Deila:

Náttúrubarnið og félagsfræðingurinn Kjartan Páll Sveinsson, nýr formaður Strandveiðifélags Íslands, segir að yfirgnæfandi stuðningur þjóðarinnar við strandveiðar, sem birtist í nýrri könnun, hafi verið guðsgjöf.

Strandveiðar hófust 2. maí síðastliðinn í skugga óvissu um fyrirkomulag veiðanna. Veiðarnar verða, í það minnsta fyrst um sinn, með sama sniði og í fyrra. Matvælaráðuneytið setti hins vegar þann fyrirvara að breyta gæti þurft reglugerðinni, verði frumvarp ráðherra um strandveiðar samþykkt. Frumvarpið kveður á um að aflaheimildum verði skipt eftir svæðum í hlutfalli við bátafjölda. Veitt hefur verið úr opnum potti undanfarin ár, þar sem Vesturland hefur borið áberandi mest úr býtum. Veiðarnar voru í fyrra stöðvaðar 21. júlí, þegar besti tíminn var fram undan fyrir austan land.

Kjartan Páll segir Strandveiðifélagið harma þessa óvissu. Hann bendir á að um 700 fjölskyldur hafi beðið milli vonar á ótta eftir ákvörðun um fyrirkomulag veiðanna. „Strandveiðisjómenn hafa eitt hundruðum þúsunda króna til undirbúnings fyrir tímabilið án þess að vita hvernig atvinnu þeirra verður háttað. Það er rakinn dónaskapur að gera þetta með þessum hætti. En það er ekki það versta, því maður getur staðið vanvirðingu af sér. Verra er að þetta getur sett heimilisbókhaldið á hliðina. Þessar veiðar eru í eðli sínu háðar mikilli óvissu, svo sem vegna tíðarfars. Samt er staðan þannig að stærsti óvissuþátturinn er íslensk stjórnvöld,“ segir hann. Kjartan segist vita til þess að fjölmargir á svæðum B og C hafi beðið eftir niðurstöðu í málinu; til að geta tekið ákvörðun um hvar þeir muni róa. „Mér virðist sem ráðherra hafi stólað á að geta rumpað þessu í gegn á mettíma en misreiknað sig hræðilega. Og við sitjum enn í súpunni.“

Kjartan er með doktorsgráðu í félagsfræði en hefur stundað strandveiðar frá árinu 2020. Hann ólst upp við trillumennsku en afi hans var grásleppukarl og æðarbóndi á Breiðafirði. „Það var alltaf draumur minn að róa sjálfur en það var ekki raunhæft eftir að kvótakerfið setti allt í lás. Þá fór maður í aðra átt. Ég viðurkenni að það þurfti mikið til að ákveða að leggja átta ára nám til hliðar og fara á sjóinn,“ útskýrir hann. Kjartan segist ekki hafa getað hugsað sér að verja allra starfsævinni við skrifborð.

Nánar er rætt við Kjartan Pál í Ægi.

Deila: