Brælur setja mark sitt á strandveiðar

Deila:

Brælur hafa sett svip sinn á aflabrögð strandveiðibáta, það sem af er maímánuði. Í dag liggur flotinn bundinn við bryggju, þrátt fyrir að nokkrir bátar, sérstaklega á norðanverðu landinu, hafi róið í nótt. Hvorki er útlit fyrir gott sjóveður á sunnan- og vestanverðu landinu á morgun né hinn.

Besti dagurinn hingað til á vertíðinni var 10. maí þegar rúm 400 tonn komu að landi. Þann 9. maí og 17. maí voru tonnin rúmlega 350, eins og sjá má á meðfylgjandi grafi.

Þrátt fyrir brælutíð hafði strandveiðiflotinn landað rúmum 28% af þeim aflaheimildum sem ráðherra úthlutaði til strandveiða. Með sama áframhaldi verður vertíðin búin fyrr áætlað er en strandveiðar eiga að standa yfir í maí, júní, júlí og ágúst. Í fyrra voru veiðar stöðvaðar 21. júlí. Enn eru nokkrir dagar eftir af maímánuði.

Smábátasjómenn bíða enn eftir niðurstöðu Alþingis en frumvarp matvælaráðherra um svæðaskiptingu er enn til umfjöllunar í atvinnuveganefnd. Þar sýnist sitt hverjum. Mikil óvissa ríkir þannig um veiðarnar í ár.

Mestur þorskafli hefur komið á land á svæði A, eins og undanfarin ár. Á svæði A eru 49% bátanna sem hafa landað en A-svæðið hefur veitt 56,1% af þeim þorski sem komið hefur á land. Önnur svæði búa því við skerta aflahlutdeild, enda er veiðin við vestanvert landið fyrripart sumars.

Deila: