Óvæntur dýrgripur

Deila:

Á vef Samherja er að finna skemmtilega frásögn af óvæntri gjöf sem barst fyrirtækinu. Frásögnin hefst á því að Útgerðarfélag Akureyringa hafi keypti togarann Harðbak EA 3 frá Aberdeen í Skotlandi árið 1950. Á þessum tíma átti félagið fyrir tvo togara, Kaldbak EA 1 og Svalbak EA 2.

„Nýr Harðbakur lagðist að Oddeyrarbryggju á Akureyri annan jóladag 1950 og „gerðu margir sér tíðförult niður á tanga“, eins og segir í bókinni „Steinn undir framtíðar höll,“ sem er saga Útgerðarfélags Akureyringa 1945 – 1995.  Harðbakur var stærri en hinir tveir togarar félagsins og auk þess var um borð fiskimjölsverksmiðja, sem var nýbreytni. Harðbakur var gerður út til ársins 1976 og var seldur þremur árum síðar í brotajárn,” segir á vefnum. Svo kemur fram:

Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja fékk í fyrra óvænta heimsókn. Gesturinn tjáði Kristjáni að hann væri með skipsbjöllu Harðbaks, sem hann taldi að best væri varðveitt hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Með öðrum orðum, það fór ekki allt í brotajárn eins og álitið hafði verið, festiboginn fylgdi meira að segja bjöllunni góðu.

„Þetta er einstakur dýrgripur í mínum huga og afskaplega ánægjulegt að skipsbjallan sé komin til varðveislu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Þökk sé þeim sem björguðu verðmætum áður en Harðbakur fór í brotajárn. Ekki síðri þakkir vil ég færa öllu því hagleiksfólki sem kom að gerð þessa einstaka listaverks sem nú er tilbúið,“ segir Kristján Vilhelmsson.

 

Nánar má lesa um málið hér.

Deila: