Svandís stöðvar ekki hvalveiðar

Deila:

Á fundi atvinnuveganefndar í morgun sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að það væri ekki í hennar valdi að stöðva hvalveiðar í sumar. „Sú lagastoð er ekki fyrir hendi hér,“ sagði ráðherrann. Vísir greinir frá þessu. Þar segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um veiðar á næsta ári en við blasi að endurskoða þurfi lög um hvalveiðar.

Nefndin bauð Svandísi til fundarins til að ræða eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um veiðar á langreyðum. Niðurstaða skýrslunnar var að einn af hverjum fjórum hvölum væri skotinn oftar en einu sinni. Dæmi væru um að dauðastríð dýranna næmi mörgum klukkustundum, þvert á markmið laga um velferð dýra um að koma skuli í veg fyrir óþarfa þjáningar.

Hvalur hf. er með leyfi til að veiða langreyðar í sumar en kallað hefur verið eftir því að ráðherra afturkalli það í kjölfar skýrslunnar. Svandís hefur sagt að það komi ekki til greina. Hún sagði þó á fundinum í morgun að hvalveiðar væru barn síns tíma.

 

 

Deila: