Loðnan skilaði meti í greiddum veiðigjöldum

Deila:

Útgerðir greiddu 1.852 milljónir króna í veiðigjald vegna veiða í mars. Þetta kemur fram í frétt á vef Radarsins. Þar segir að vafalaust hafi tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi aldrei verið meiri í einum mánuði. Um sé að ræða þreföldun á veiðigjöldum marsmánaðar í fyrra.

„Það kemur eflaust fáum á óvart að af einstaka fisktegundum munar mest um veiðigjald af loðnu í mars, enda unnu stjórnendur og starfsmenn uppsjávarfyrirtækja myrkranna á milli í mánuðinum við að ná loðnukvótanum. Það tókst og lönduðu uppsjávarskipin samanlagt 215 þúsund tonnum af loðnu í mars,” segir í fréttinni.

Fram kemur að fyrir hvert kíló af loðnu greiðist 5,54 krónur í veiðigjald. Heildarfjárhæð veiðigjalds af loðnuveiðum hafi þannig numið 1.191 milljón króna í mars, en 400 milljónir fyrir þorskveiðar.

Samanlagt hafa útgerðir greitt um 3.650 milljónir króna í veiðigjald vegna veiða á fyrsta ársfjórðungi.

Deila: