Sjómannadagsgleðin á Patreksfirði hefst í dag

Deila:

Ein af veglegustu sjómannadagshátíðum landsins er á Patreksfirði og þar dreifist hún á fjóra daga. Dagskráin hefst síðdegis í dag með skemmtiskokki, götugrilli og uppistandssýningu Péturs Jóhanns í félagsheimili Patreksfjarðar kl. 21.
Á morgun verður sjómannagolfmót og grill og kl. 17 sýnir Leikhópurinn Lotta leikritið Gilitrutt á Friðþjófstorgi. Dagskránni lýkur svo þann daginn með tónleikum í félagsheimilinu í boði Arnarlax þar sem stórhljómsveitin Nýdönsk skemmtir.

Skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna
Dagskrá laugardagsins hefst strax kl. 10 með göngu um Patreksfjörð með Guðrúnu Önnu þar sem sagðar verða grobbog gróusögur frá Patreksfirði. Á sama tíma verður sjósund við Þúfneyri sem öllum er velkomið að taka þátt í.
Klukkan 11 verður dorgveiðikeppni við höfnina, einnig verður boðið upp á sjóstangaveiði á sama tíma og að þessu loknu bjóða íbúar á Hjöllum öllum í götusúpu. Eftir hádegið verður kraftakeppni og kl. 14 hefst skemmtidagskrá við Eyrargötu þar sem fram koma Björgvin Franz, Herra Hnetusmjör, Latibær og Lína langsokkur. Hoppukastalar, sjávargrill, lifandi tónlist, gleði og grín í bland.

Klukkan 16 verður svo hin eftirsótta hátíðarsigling um fjörðinn í boði og þar á eftir barnaball með Stuðlabandinu en hljómsveitin fylgir því sem eftir með stórdansleik sumarsins á sunnanverðum Vestfjörðum í félagsheimilinu. Hann hefst kl. 23:30 og stendur fram á rauða sumarnótt.

Hátíðarmessa, heiðranir og kappróður
Hátíðarmessa sjómannadagsins verður í Patreksfjarðarkirkju kl. 11 og verða sjómenn heiðraðir við þá athöfn. Að henni lokinni verður skrúðganga að minnismerki um látna sjómenn.
Kappróður verður við höfnina kl. 13 og milli kl. 15 og 17 verður kaffisala kvenfélagsins Sifjar í félagsheimili Patreksfjarðar – sannkallað hnallþórukaffi.

Frönsku sjómennirnir og gamli tíminn
Meðal fastra dagskrárliða alla hátíðardagana er sýningin Frönsku fiskimennirnir og gamli tíminn sem er á Mýrum 8 á Patreksfirði. Sýningin er helguð veru franskra fiskimanna á skútuöldinni hér við land og komu franskra vísinda- leiðangra til Patreksfjarðar allt aftur til ársins 1767. Á sýningunni má sjá einstæða muni og myndir, meðal annars myndir teknar af Frökkum hér við land fyrir um 100 árum.

Deila: