Sextíu ára afmæli Húna II fagnað

Deila:

Á Akureyri verður því fagnað síðdegis í dag að 60 ár eru liðin frá smíði eikarbátsins Húna II. Dagskrá sjómannadagshelgarinnar hefst í Iðnaðarsafninu á Akureyri kl. 14 þar sem nýtt líkan af Húna II verður afhjúpað í tilefni afmælis bátsins en um leið verður 25 ára afmæli Iðnaðarsafnsins fagnað.

 

Merkilegt eikarskip
Húni II er stærsta eikarskip smíðað á Íslandi sem enn flýtur og jafnframt eini báturinn af þessari gerð sem hefur varðveist óbreyttur. Húni II var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri 1962-1963 og var Tryggvi Gunnarsson, yfirsmiður stöðvarinnar og verksins.
Skipið var í fyrstu á síldveiðum en síðar á þorskanetum, trolli, humar, línu, netum og svo aftur á síld. Um 1990 lenti skipið á kvótakerfisflakki þegar tilhneiging var til að úrelda gamla báta, ekki hvað síst trébáta og fórna þeim fyrir önnur skip. Árið 1994 keypti Þorvaldur Skaptason bátinn á Seyðisfirði fyrir 10 krónur, að því er heimildir segja. Báturinn var þá vélarlaus og beið þess að vaskir menn settu hann á áramótabrennu. Þorvaldur hraktist með bátinn á milli staða og reyndi að finna honum hlutverk. Næst lá leiðin í Hvalaskoðun frá Hafnarfirði en árið 2004 var bátnum siglt til Akureyrar og þar stofnað um hann félag – Hollvinafélag Húna II. Árið 2006 keyptu ríki, bær og KEA skipið af Þorvaldi og færðu Iðnaðarsafninu á Akureyri að gjöf. Gjöfinni fylgir sú yfirlýsing að Hollvinafélag Húna II skuli taka að sér rekstur skipsins. Þannig hefur það verið síðan og er Húni II gerður út fyrir ferðmenn, skóla og einstök verkefni.
Húni II verður til sýnis í Fiskihöfninni á Akureyri á laugardeginum um sjómannahelgina milli kl. 14 og 16 en mun síðan fara í þrjár siglingar á sjómannadaginn sjálfan í boði Sjómannafélags Eyjafjarðar. Öllum er boðið í siglingarnar meðan skipsrúm leyfir.

Heimboð trillukarla og heiðranir
Dagskrá sjómannadagshelgarinnar á Akureyri er annars þannig að á morgun, laugardag kl.10-13, bjóða trillukarlar heim í Sandgerðisbót og þar verða sjómenn heiðraðir, auk þess sem í boði verður grillmatur fyrir gesti og gangandi.
Á sjómannadaginn sjálfan hefst dagskráin að vanda með hátíðarmessu í Glerárkirkju kl. 11 og að henni lokinni verður blómsveigur lagður að minnismerki um drukknaða og horfna sjómenn. Boðið verður upp á súpu í safnaðarheimili Glerárkirkju að athöfn lokinni.
Aðstaða Siglingaklúbbsins Nökkva verður til sýnis kl. 11-14 og eftir hópsiglingu Húna II, skemmtibáta og smábáta kl. 13:15 verða áður nefndar skemmtisiglingar í boði með Húna II, þ.e. kl. 13:15, 14:30 og 15:45. Farið verður í aukasiglingu ef þörf krefur.

Mynd: Þorgeir Baldursson

 

 

Deila: