Fjárskortur plagar Hafró

Deila:

„Það er áhyggjuefni hvernig fjármagn til haf- og vatnarannsókna hefur dregist saman á undanförnum árum með þeim afleiðingum að dregið hefur úr grunnrannsóknum og vöktun auðlinda.”

Þetta segir Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar í ávarpi sínu í nýrri ársskýrslu Hafrannsóknastofnunar. Hann segir í ávarpinu að öflugar hafrannsóknir og vöktun á umhverfi sjávar séu forsenda sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlindanna sem auki þekkingu á umhverfinu og þeim breytingum sem þar séu að verða. Það var því mikið fagnaðarefni þegar undirritaður hafi verið samningur við skipasmíðastöðina Astilleros Armón í Vigo á Spáni þann 31. mars 2022 um smíði á nýju rannsóknaskipi fyrir stofnunina.

Hann segir hins vegar að fjárskortur plagi stofnunina. „Þetta er bagalegt, ekki síst í ljósi umhverfisbreytinga sem kalla á auknar rannsóknir, til að skilja áhrif þeirra á lífríkið og mögulegar afleiðingar til lengri tíma litið. Þá eru sífellt auknar kröfur um sjálfbærni við nýtingu og að nýtingin valdi ekki óafturkræfum áhrifum á umhverfið.”

Ávarpið má sjá hér en ársskýrslan er hér.

Rekstur Hafrannsóknarstofnunar á árinu 2022 var nokkurn veginn í takt við áætlanir. Tekjur voru 4,3% hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir en á móti voru útgjöld stofnunarinnar líka heldur meiri en gert var ráð fyrir, eða sem nemur 2,8%.

Deila: