Tillögur kynntar um samdrátt losunar í sjávarútvegi

Deila:

Heildarmarkmið um samdrátt samdrátt Íslands í losun koltvísýrings til ársins 2030 er 55%. Ellefu atvinnugreinar hafa afhent Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu í gær, í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA). LVA er samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Tillögurnar sem snúa að sjávarútvegi eruí fjórum liðum. Um er að ræða tillögur sem snúa að olíunotkun íslenskra fiskiskipa, útblástur vegna kælimiðla, olíunotkun fiskimjölsverksmiðja og hringrás úrgangs. Tillögurnar má sjá hér að neðan.

1.  Olíunotkun íslenskra fiskiskipa

SJÁVARÚTVEGUR:

  • Endurnýjun skipaflota: Endurnýjun flota sem kominn er á aldur með orkunýtingu í fyrirrúmi.
  • Orkunýting: Rekstrarráðstafanir og tæknilegar aðgerðir.

STJÓRNVÖLD:

  • Tryggja fjármagn til landtenginga.
  • Styrkja stoðirnar, kerfið og hafrannsóknir. Tryggja þarf nægjanlegt fjármagn til Hafrannsóknastofnunar til að hægt sé að sinna öflugri vöktun helstu nytjastofna.
  • Tryggja næga orku (þ.m.t. heitt vatn) í höfnum á samkeppnishæfu verði.
  • Hvatar til fjárfestinga til að flýta endurnýjun skipaflota: Orkusparnaður er metinn um 20% þegar gömlu skipi er skipt út fyrir nýtt og áætlað er að 20% af kostnaði við nýsmíðar kemur til vegna hámörkunar á orkunýtni og þar með umhverfislegum ávinningi.
  • Íblöndun: Tryggt verði lífeldsneyti í íblöndun sem uppfyllir Evrópustaðla og staðla frá vélaframleiðendum á samkeppnishæfu verði.
  • Hvatar til orkuskiptaverkefna.

2. Útblástur vegna kælimiðla

SJÁVARÚTVEGUR:

  • Endurnýjun kælikerfa: Fjárfesting í kælikerfum án útblásturs.

STJÓRNVÖLD:

  • Leiðrétting loftslagsbókhalds: Útreikningar verði bættir svo skráning vegna kælimiðla í fiskiskipum verði nær raunlosun.
  • Fjárhagslegar ívilnanir: Stutt sé við grænar fjárfestingar og útskiptingu á þeim kerfum sem eftir standa.

3. Olíunotkun fiskimjölsverksmiðja

SJÁVARÚTVEGUR:

  • Orkuskipti: Rafvæðing verksmiðja sem ekki hafa nú þegar verið rafvæddar.

STJÓRNVÖLD:

  • Örugg raforka: Tryggð sé næg raforka svo allar verksmiðjur geti gengið fyrir rafmagni árið 2030 og afhendingaröryggi sé tryggt á öllum stöðum.
  • Styrking flutningskerfis: Svo ráðast megi í fjárfestingar við að rafvæða þær verksmiðjur sem eftir standa er nauðsynlegt að styrkja flutningskerfi raforku.
  • Skilvirkar leyfisveitingar: Stjórnvöld geri leyfisveitingarferli skilvirkara svo orkufyrirtæki geti framleitt næga orku fyrir árið 2030.

4. Hringrás úrgangs

SJÁVARÚTVEGUR:

  • Endurnýting og flokkun: Áfram verði haldið að flokka sorp sem fellur til á sjó og landi og skapa verðmæti úr öllu hráefni, umhverfisáhrif lágmörkuð og sóun útrýmt.
  • Endurvinnsla veiðarfæra: Áframhaldandi áhersla á endurvinnslu veiðarfæra.

STJÓRNVÖLD:

  • Veiðarfærasamningur: Brýnt er að ráðherra samþykki veiðarfærasamning SFS, veiðarfæragerða og Úrvinnslusjóðs.
  • Móttökuaðstaða í höfnum: Koma verður upp samræmdri móttökuaðstöðu í höfnum fyrir flokkaðan úrgang frá skipum.
Deila: