Frumvörp Svandísar ekki afgreidd

Deila:

Hvorugt þingmála Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra verður afgreitt fyrir þinglok, sem verða í dag. Samkomulag um þinglok náðist á þriðjudag. Í því fólst að þingstörfum yrði frestað 9. júní, í samræmi við starfsáætlun Alþingis.

Í lista yfir 30 mál sem verða afgreidd er hvorki að finna frumvarp matvælaráðherra um kvótasetningu grásleppu né svæðisskiptingu strandveiða.

Frumvarp ráðherra um svæðaskiptingu strandveiða hefur verið inn í atvinnuveganefnd síðan í vetur. Samkvæmt heimildum Auðlindarinnar komu þingmenn í Norðvesturkjördæmi í veg fyrir framgang frumvarpsins en það hefði verið til þess fallið að auka jafnræði veiðanna á milli landshluta. Vestfirðir eru á því svæði sem bera mest úr býtum eins og kerfið hefur verið frá árinu 2018.

Útlit er fyrir að strandveiðum ljúki snemma í júlí þetta árið, miðað við framgang veiðanna.

Deila: