Nýt þess alltaf að vera á sjó

„Það er mögnuð tilfinning að vera ein úti á sjó, ekkert nema hafið í kring. Það er núvitund af bestu gerð,“ segir Halldóra Kristín Unnarsdóttir sem stundað hefur sjómennsku frá 12 ára aldri og strandveiðar síðustu 13 sumur sem skipstjóri. Hún gerir út bátinn Andra SH 255, fimm tonna plastbát, ásamt föður sínum, Unnari Leifssyni. „Ég nýt þess alltaf að vera á sjó, hvort heldur það er rólegt yfir eða mokveiði. Þetta er alltaf jafn gaman og gefandi.“
Sex ára grenjandi á bryggjunni!
Halldóra, sem jafnan er kölluð Dóra Unnars er fædd og uppalin á Rifi á Snæfellsnesi og býr þar nú. „Ég hef víða farið og átt heima hér og hvar en rata alltaf heim aftur,“ segir hún. Líkt og þeir sem alast upp í sjávarþorpum um landið komst hún fljótt í kynni við sjávarútveginn. Pabbi hennar og afi, þeir Unnar Leifsson og Leifur Jónsson, gerðu árum saman út bát og réru öll sumur.
Afinn var að auki hafnarvörður á Rifi til fjölda ára. „Ætli ég hafi ekki verið um 6 ára þegar ég man eftir mér grenjandi á eftir þeim á bryggjunni þegar þeir voru á leið í róður og fannst ég alltof ung til að fara með. En ég var mikið í kringum þá, þegar verið var að græja bátinn og þegar þeir lögðu að. Þá voru alls konar verkefni sem ég leysti af fremsta megni, eins og að verka hrogn og greiða úr netum og þvíumlíkt. Ég hafði óskaplega gaman af þessu og má segja að ég hafi fengið þessa bakteríu snemma,“ segir Dóra, en þær eru þrjár systurnar og hinar alveg lausar við áhuga á sjómennsku. „Ég var sú eina sem fékk bakteríuna, hinar vilja helst halda sig víðsfjarri bryggjum og sjó.“
Leysti afa sinn af 12 ára
Heldur betur hljóp á snærið hjá Dóru þegar afi hennar ákvað eitt sumarið að vera í landi og sinna öðrum störfum. Þá losnaði pláss og án þess að hika tók hún tilboði um að róa með pabba sínum það sumar. Þá var hún 12 ára. „Þetta var himnasending fyrir mig og ég var alsæl með að geta leyst afa minn af. Það má segja að eftir þetta sumar hafi ég alveg fallið fyrir sjómennskunni og kann eiginlega hvergi jafn vel við mig og á sjó,“ segir hún en öll sumur til 18 ára aldurs réri hún með pabba sínum. Sumarið byrjaði á grásleppu og síðan var farið á skak. „Ég reyndi líka alltaf að komast á sjó þegar var frí í skóla og greip hvert tækifæri sem gafst,“ segir hún en árið 2011 ákvað hún að taka svonefnt pungapróf og einnig vélavörðinn og segir að það hafi komið sér mjög vel. „Þetta er nám sem hefur nýst mér mjög vel og ég mæli með því við þá sem eru að róa,“ segir hún.
Viðtalið í heilld má lesa hér, í nýju tölublaði Sóknarfæris.