Að nýta verðmæti úr vatni

Deila:

Eldri rannsónir hafa sýnt að fiskvinnslur á Íslandi nota mun meira vatn en sambærilegar vinnslur á meginlandi Evrópu, allt að því 50% meira magn. Verkefnið Accelwater sem Matís tekur þátt í snýr m.a. að því að greina ítarlega notkun vatns og tækifæri til sparnaðar. Verkefnið er til fjögurra ára og er eitt ár eftir af því en það nýtur styrkja frá Evrópusambandinu en auk Íslands eru þátttakendur frá Spáni, Ítalíu og Grikklandi. Fjölmargir matvælaframleiðendur og rannsóknaraðilar taka þátt í þessu verkefni innan landanna fjögurra og fer Matís fyrir þeim rannsóknum sem gerðar eru hér á landi. Verkefnastjóri er Hildur Inga Sverrisdóttir sem vinnur ásamt Sæmundi Elíassyni og teymi vísindamanna hjá Matís að rannsóknum í verkefninu.

Á Íslandi snýst verkefnið um að bæta vatns- og orkunotkun í fiskvinnslum og segir Sæmundur að áhersla sé einkum lögð á landsvinnslu hvítfisks og landeldi laxa. Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, Útgerðarfélag Akureyringa og Samherji Fiskeldi eru þátttakendur í verkefninu á Íslandi.

Á Ítalíu er unnið að tilraunum innan virðiskeðju í tómatarækt, kjötvinnslu á Spáni og mjólkurframleiðslu og bruggun í Grikklandi. „Þetta er mjög fjöbreytt en snýst alltaf um matvælaframleiðslu af einhverju tagi. Við erum að skoða hröðun hringrásarvatns í matvæla- og drykkjariðnaði hér og hvar um Evrópu með það helsta markmið að nýta verðmæti úr vatni og minnka ferskvatnsnotkun við matvælaframleiðslu þar sem tækifæri eru til,“ segir Sæmundur og bætir við að almennt sé mikið vatn notað við framleiðslu matvæla og það sé nauðsynlegt til að tryggja matvælaöryggi. Hins vegar megi ávallt gera betur, leita leiða til að fara sparlega með auðlindir.

Höfum ekki þurft að spara vatn og orku

„Við á Íslandi getum ekki kvartað. Hér hefur víðast hvar ávallt verið nægt framboð af bæði hreinu vatni og grænni orku, ýmist frá jarðvarma- eða vatnsvirkjunum. Það er líklegt að við höfum oft ekki sýnt nægilega aðgát í notkun á bæði vatni og orku. Við höfum alltaf haft svo gott aðgengi að bæði vatni og orku að við höfum eflaust ekki alltaf nýtt þessar auðlindir okkar nægjanlega vel,“ segir Sæmundur. Annað sé uppi á teningnum í Evrópu þar sem vatn og orka séu víða af skornum skammti og þar um slóðir þurfi virkilega að fara sparlega með hvoru tveggja. Hann bendir á að verð fyrir vatn og orku á Íslandi hafi verið í lægri kantinum miðað við Evrópulönd og það sé ef til vill ein af ástæðum fyrir mikilli noktun. „Víða um Evrópu er þetta takmörkuð auðlind og þá leita menn frekar leiða til að spara,“ segir Sæmundur.

„Sjónarmið eru að breytast hér og landi og raunar um allan heim. Fólk vill ekki sóa verðmætum, jafnvel þó nóg sé til og aðgengi gott. Þetta er annar hugsunarháttur sem nú er að ryðja sér til rúms, stemmningin er orðin önnur en hún áður var. Nú er meira horft til þess að nýta hlutina betur, draga úr notkun þar sem það er hægt. Fólk er að átta sig á að auðlindir eru ekki endilega óþrjótandi og það er betra að fara sparlega með þær,“ segir hann.

Mikil tækifæri til að fara betur með

Sæmundur segir að rannsóknir hafi leitt í ljós að fiskvinnslur noti oft töluvert meira vatn en þörf er á. „Þar eru mikil tækifæri fyrir hendi að gera betur og við munum nýta þann tíma sem eftir er af verkefninu til að skoða ýmsa möguleika í þeim efnum.“

Nefna má varðandi hvítfiskvinnslur að talsvert magn próteina skolast út í frárennslið. Er verið að skoða á hvern hátt megi nýta það. „Við erum að rannsaka hvort hægt er að fanga þetta prótein úr kerfinu, hreinsa það frá fráveituvatninu og gera úr því hliðarafurð af einhverju tagi,“ segir hann.

Verkefni um áburðarframleiðslu úr seyru lofar góðu

Í landeldi er einnig verið að rannsaka aukna nýtingu úr því sem til fellur og er í gangi verkefni sem miðar að því að nýta sem mest af því sem fellur til og draga um leið úr sóun. Rannsóknin gengur út á að safna saman fiskeldisseyru sem inniheldur mikið magn verðmætra næringarefna, svo sem fosfórs og geti því hentað vel til áburðarframleiðslu. „Við flytjum inn mikið magn áburðar með tilkostnaði þannig að það er til mikils að vinna ef við náum að framleiða áburð hér á landi,“ segir hann. Nægilegt magn yrði fyrir hendi til áburðarframleiðslunnar en Sæmundur segir að helst strandi á reglugerðarumhverfinu í kringum framleiðsluna. Þær reglugerðir sem nú eru í gildi eru gamlar, frá því áður en landeldi hófst að einhverju ráði. Samkvæmt reglugerðinni er því litið á seyruna sem hættulegan úrgang sem þurfi að farga með viðeigandi hætti. „Það er búið að leysa flest þau tæknilegu vandamál sem fyrir hendi voru og er í raun ekkert að vanbúnaði að hefja söfnun seyrunnar en reglugerðin er til trafala, hún gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að nýta þessa hliðarafurð sem frá landeldinu kemur,“ segir hann en bætir við að yfirstandandi sé skoðun á reglugerðinni sem gæti liðkað til.

Annað verkefni sem einnig hefur verið í gangi í sambandi við landeldið er að nýta það blóð sem fellur til við slátrun fiskanna. Þeim yrði þá slátrað með öðrum hætti en nú, látið þurrblæða og hreinu og ómenguðu blóði safnað saman í stað þess að hleypa því út í fráveitukerfi. Möguleiki væri á að nýta þessa afurð til að framleiða járnbætiefni fyrir fólk. „Það er mikill ávinningur ef okkur tekst að nýta bæði seyru og blóð til að framleiða verðmætar vörur. Við munum nýta það ár sem eftir er af verkefninu til að koma þessum verkefnum okkar í farveg og höfum góðar væntingar um að vel mun ganga,“ segir Sæmundur.

Á myndinni kynna Sæmundur Elíasson og Hildur Inga Sveinsdóttir mælingar á vatnsnotkun í fiskvinnslu á fundi Accelwater á Spáni.

Greinin birtist fyrst í Sóknarfæri.

Deila: