Útlit fyrir stöðvun strandveiða í næstu viku

Útlit er fyrir að lokadagur strandveiða verði miðvikudagur í næstu viku, 3. júlí. Í kjölfarið verði veiðar stöðvaðar. Búið er að veiða 83,5% af strandveiðipottinum. Meðalafli á dag síðustu 3 vikur er rúm 400 tonn. Fyrir daginn í dag voru 1.760 tonn eftir. Miðað við sömu framvindu eru fjórir veiðidagar eftir, að deginum í dag meðtöldum.
Strandveiðar hófust í byrjun maí og er ætlað að standa yfir í fjóra mánuði. Aflaheimildir hafa ekki dugað flotanum nema fram í miðjan júlí undanfarin tvö ár. Að þessu sinni mun veiðum ljúka rétt eftir mánaðamót.
Ríkið seldi makrílkvóta fyrir 1.650 tonn af þorski á dögunum. Dæmi eru um að ráðherra sjávarútvegsmála hafi ráðstafað slíkum aflaheimildum inn í strandveiðikerfið. Ekkert hefur heyrst frá ráðherra í þeim efnum að þessu sinni. Slík viðbót myndi sennilega framlengja vertíðina um fjóra veiðidaga, nema veður hamlaði sjósókn.
Strandveiðimenn mótmæltu fyrirhugaðari ótímabærri stöðvun veiðanna á dögunum. Þeirra krafa er að fá að veiða í 48 daga, líkt og lög um strandveiðar kveða á um.