Kraftur í makrílvinnslu í Neskaupstað

Deila:

Frá 2. júlí hefur verið samfelld vinnsla á makríl í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Beitir NK kom með fyrsta farminn, síðan kom Vilhelm Þorsteinsson EA og í kjölfar hans Börkur NK. Nú er verið að vinna makríl úr Margréti EA og Barði NK er væntanlegur með 900 tonn.

Í fréttinni er rætt við Geir Sigurpál Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuversins, sem segir að vinnslan gangi vel. „Við erum að fá stóran og góðan fisk til vinnslu. Meðalþyngdin er um 530 grömm og það er afar lítið af smærri fiski í aflanum. Veiðin er þannig að vinnslan helst samfelld og það er mikilvægt. Svo er það ómetanlegt að megnið af fiskinum kemur úr íslenskri lögsögu svo það er ekki langt fyrir skipin að sækja aflann. Við höfum einungis fengið einn farm úr Smugunni. Vinnslan hjá okkur er fjölbreytt; það er ýmist heilfryst, hausað eða flakað. Það virðist vera gott útlit varðandi sölu á makrílnum og það er væntanlegt skip í lok vikunnar til að taka makríl þannig að framleiðslan dvelur ekki lengi í frystigeymslunum,” segir Geir Sigurpáll.

Deila: