Fantaveiði á karfa

Deila:

Ísfisktogarinn Bergur VE landaði fullfermi af karfa í Þorlákshöfn á laugardaginn. Um var að ræða annan karfatúr skipsins á einni viku. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Jón Valgeirsson skipstjóri segir að veiðin hafi gengið vel. „Það var einfaldlega fantakarfaveiði á Fjöllunum á Reykjaneshryggnum. Það gekk hratt og vel að fylla skipið rétt eins og í karfatúrnum á undan. Við lönduðum í Þorlákshöfn vegna goslokahátíðar því þá er Herjólfur upptekinn í öðrum verkefnum en að flytja fisk á milli Eyja og lands. Það var haldið til veiða á ný strax að löndun lokinni og þá var farið austur á Stokksnesgrunn að reyna við ýsu. Það var ágæt ýsuveiði þar til að byrja með en svo datt hún niður og þá færðum við okkur á Lónsbugtina þar sem við erum nú í blíðunni að reyna við kola. Ég geri ráð fyrir að við löndum í Eyjum á morgun,” er haft eftir Jóni í gær.

Deila: