Sjö náðu 26 tonnum af þorski – Nökkvi og Kári hæstir

Deila:

Sjö bátar rufu 26 tonna múrinn á strandveiðivertíðinni þegar að þorskafla kemur. Veiðarnar voru stöðvaðar í gær. Í þessum tölum er búið að draga frá umframafla. Nökkvi Ár var aflakóngurinn þegar allur afli er talinn en hann veiddi 40 tonn af fiski, þar af 18 tonn af ufsa. Fimm bátar veiddu 10 tonn eða meira af ufsa á vertíðinni.

Athugið að þetta byggir á tölum Fiskistofu að morgni 19. júlí. Í einhverjum tilvikum gæti átt eftir að skrá síðustu róðrana á vef Fiskistofu.

Aflahæstir báturinn í þorski, að frátöldum umframafla, var Kári BA. 116 bátar lönduðu að jafnaði 750 kg af þorski eða meira á vertíðinni.

Strandveiðar gengu vel víða um land en flotinn veiddi hátt í 12 þúsund tonn af þorski. Eins og sjá má á meðfylgjandi tölum veiddist nokkuð vel víða um land. Norðurfjörður var öflugasta löndunarhöfnin en þar var meðalvigtin 762 kg af þorski, þegar leiðrétt hefur verið fyrir umframafla.Athygli vekur að sex hafnir á svæði C ná inn á top 20 listann, en besta veiðin á C-svæði er jafnan síðsumars. Þessar tölur taka auðvitað ekki til stærðar fisks eða verðs, aðeins þyngdar.

Fiskistofa reyndi að spyrna við löndun umframafla fyrir vertíðina með því að afnema að löndun umframafla telji til veiðireynslu fyrir byggðakvóta. 21 bátur landaði engu að síður meira en tonni af samanlögðum umframafla á vertíðinni.

Viðurlögin við löndun umframafla eru þau að útgerðirnar eru sektaðar fyrir fiskinn að upphæð sem samsvarar meðalverði á markaði þess dags fyrir umframaflann. Bent hefur verið á að þeir sem eru í stórum og verðmætum fiski geti þannig hagnast svolítið á athæfinu. Ef meðalverð á markaði er 400 krónur en meðalverð á stórfiskinum 500 krónur getur sá sem veiðir umfram leyfilegan hámarksafla haft 100 krónur pr. kíló út úr bröltinu. Umframaflinn dregst, eins og annar afli, frá heildaraflamarki strandveiða. Menn sem ítrekað landa umframafla gera það því á kostnað hinna.

Aðgerð Fiskistofu hefur ekki skilað tilætluðum árangri því flotinn veiddi 223 tonn umfram leyfilegt hámark dagsafla á þorski á vertðinni. Þegar við bætist að 115 tonn voru eftir af pottinum þegar veiðarnar voru stöðvaðar má gera ráð fyrir að flotinn hefði fengið einn veiðidag til viðbótar, ef engum umframafla hefði verið landað, eða ef reglum hefði verið breytt þannig að umframafli dregðist ekki frá heildarafla; að brot fárra bitnaði ekki á fjöldanum.

Athugið að tölurnar í þessari frétt byggja allar á upplýsingum frá Fiskistofu.

Deila: