Minnsti lífmassi makríls frá 2007
Lífmassi makríls hefur ekki mælst minni frá árinu 2007, að því er fram kemur á vef Hafró. Þar er sagt frá niðurstöðum sameiginlegs uppsjávarleiðangurs Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana. Leiðangurinn var farinn á tímabilinu 29. júní til 2. ágúst.
Fram kemur að markmiðið hafi verið að meta magn uppsjávarfiska í Norður-Atlantshafi að sumarlagi. Leiðangursvæðið var 2,2 milljón ferkílómetrar.
„Vísitala lífmassa makríls var metin 2,51 milljón tonn sem er tæplega 42% lækkun frá árinu 2023 og er minnsti lífmassi sem mælst hefur síðan 2007 (mynd 1). Vísitalan í ár er ríflega 66% lægri en langtímameðaltal gagnaseríunnar (7,4 milljónir tonna). Byggir vísitalan á afla í alls 205 stöðluðum yfirborðstogum á fyrirfram ákveðnum stöðvum.
Útbreiðsla makríls við Ísland var minni en á síðasta ári (mynd 2). Mesti þéttleikinn var fyrir utan landgrunnsbrúnina fyrir suðaustan landið. Ekkert mældist af makríl fyrir vestan og sunnan landið. Samt sem áður mældist um 19,9% af heildarlífmassa makríls í íslenskri landhelgi samanborið við 10,3% síðasta ár og er það vegna mikils afla á einni togstöð (10,3 tonn). Líkt og undanfarin ár var meiri hluti stofnsins í Noregshafi og þá sérstaklega suðvestan til,” segir á vef Hafró.