Samfelld síldarvinnsla fyrir austan
Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 810 tonn af síld, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir að samfelld síldarvinnsla hafi farið fram í fiskiðjuverinu að unadnförnu.
Í fréttinni er rætt við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti.
„Það gekk virkilega vel. Við tókum einungis þrjú hol og það var dregið í tvo tíma í hverju holi. Í fyrsta holinu fengum við 400 tonn og síðan 175 tonn og 235 tonn. Þetta er að langmestu leyti norsk – íslensk síld en það er svolítið af íslenskri sumargotssíld í bland við hana eins og venjulega. Síldin er stór og falleg. Meðalstærð norsk – íslensku síldarinnar er yfir 400 grömm og íslensku sumargotssíldarinnar yfir 300 grömm. Það má segja að síldarvertíðin sé komin vel af stað. Það er talsvert að sjá og það kemur ekki á óvart því menn urðu varir við töluverða síld fyrir norðan land í sumar. Við vorum að veiðum norðan við Glettinganes innarlega eða út af Borgarfirði. Ég get ekki betur séð en að síldin sé að byrja að þétta sig. Við sáum að vísu ekki stórar torfur en það voru fínir flekar við yfirborð sérstaklega þegar skyggði. Þarna voru fimm skip að veiðum um leið og við og þau voru öll að fá ágæt hol. Það verður ekki annað sagt en að þessi síldarvertíð fari býsna vel af stað,” segir Tómas.