Samningur um orkuskipti smábáta

Deila:

Samstarfssamningur hefur verið undirritaður milli Slippsins Akureyri og Grænafls ehf. á Siglufirði um þróunarverkefni í orkuskiptum smábáta þar sem markmiðið er að núverandi vélbúnaði fiskibáta sem brenna olíu verði skipt út og í hans stað komi rafmagnsbúnaður eða blendingsvélbúnaður (hybrid). Frá þessu greinir á vef Slippsins DNG.

Þar segir að Grænafl ehf. hafi á undanförnum misserum unnið að verkefninu með framleiðendum slíks búnaðar í Suður-Kóreu og sé samstarfssamningurinn við Slippinn Akureyri liður í viljayfirlýsingu sem sé fyrirliggjandi og Korean Maritime Institute leiði fyrir hönd kóreskra samstarfsaðila.

Haft er eftir Kolbeini Óttarssyni Proppé, framkvæmdastjóra Grænafls ehf. að um sé að ræða stóran áfanga að fá Slippinn Akureyri að borðinu með þá sérþekkingu sem fyrirtækið búið yfir. Til standi í vetur að vinna að breytingum á fyrstu tveimur bátunum, annars vegar báti sem að fullu verði knúinn rafmagni og hins vegar báti með blendingsvélbúnaði.

„Öllum er ljóst að tími olíubrennslu mun líða undir lok á næstu árum og áratugum og orkuskipti munu verða í fiskibátum og skipum líkt og öðrum atvinnugreinum. Þess vegna er fagnaðarefni að fá til liðs við okkur samstarfsaðila hér heima á Íslandi í því verkefni okkar að hrinda af stað orkuskiptum í minni bátum. Og ekki síst skiptir miklu máli fyrir okkur að fá til samstarfs reynslumikið fyrirtæki á skipaþjónustusviðinu, líkt og Slippurinn Akureyri er,“ er haft eftir Kolbeini á vef Slippsins DNG.

Á myndinni, sem er af vef fyrirtækisins eru frá vinstri Kolbeinn Óttarsson Proppé, framkvæmdastjóri og eigandi Grænafls ehf., Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins Akureyri og Freyr Gunnlaugsson, eigandi Grænafls ehf.

Hér má lesa nánar um málið.

Deila: