Hækkun í síld en lækkun í makríl

Deila:

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur gefið út ráðleggingar um veiðar á norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna fyrir árið 2025 og fyrir efri og neðri úthafskarfa fyrir 2025, 2026 og 2027. ICES leggur til að afli norsk-íslenskrar vorgotssíldar ársins 2025 verði ekki meira en tæp 402 þúsund tonn. Ráðgjöfin á yfirstandi ári var 390 þúsund tonn. Hækkunin nemur því 3% á milli ára.

Á vef Hafró, þar sem frá þessu er greint, segir að árgangar síðustu ára hafi verið litlir og árgangurinn frá 2016 verði uppistaðan í veiðinni síðustu ár. Árgangurinn frá 2021 sé hinsvegar stærri en síðustu árgangar og kemur hann inn í veiðistofninn á næsta ári. Af þeirri ástæðu, meðal annars, er hækkun í ráðgjöfinni milli ára.

Áætlað er að heildarafli ársins 2024 verði um 447 þúsund tonn sem er 15 % umfram ráðgjöf. Ekki er í gildi samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum um skiptingu aflahlutdeildar og hver þjóð því sett sér aflamark einhliða. Það hefur haft þær afleiðingar að frá árinu 2013 hafa veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 4-42 % á ári.
Sjá ráðgjöfina hér á vef Hafrannsóknastofnunar. 

ICES leggur til að nýting á makríl verði 557 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 739 þúsund tonn og því er um að ræða 22 % lægri ráðgjöf nú. Ástæða þess er fyrst og fremst að stofninn er metinn minni. „Áætlað er að heildarafli ársins 2024 verði ríflega 954 þúsund tonn sem er 29 % umfram ráðgjöf. Ekki er í gildi samkomulag milli allra þeirra þjóða sem stunda veiðar úr makrílstofninum um skiptingu aflahlutdeildar. Hefur hver þjóð sett sér einhliða aflamark sem hefur haft þær afleiðingar að veiðar hafa verið umfram ráðgjöf ICES. Frá árinu 2010 hafa veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 9-86 % á ári.”

Lagt er til að kolmunaveiði dragist saman um 5%.

Nánar má lesa um ráðgjöfina hér.

Deila: