Haustrall Hafró farið af stað
Haustrall Hafrannsóknastofnunar er hafið og munu tvö skip frá Vinnslustöðinni taka þátt í rallinu að þessu sinni. Auk þeirra er rannsóknarskipið Árni Friðriksson að mæla. Togað er á mörg hundruð stöðvum á mismiklu dýpi á landgrunninu. Frá þessu er sagt á vef Vinnslustöðvarinnar. Þar er bent á að þetta hafi verið gert með sama hætti frá 1985. Þannig fáist sambærilegar upplýsingar um stofnsstærð, aldurssamsetningu, fæðu, ástand og útbreiðslu helstu nytjastofna við landið. Jafnframt sé fylgst með hitastigi sjávar og ýmsu fleiru, svo sem mengandi efnum í sjávarfangi.
Greint er frá því í fréttinni að um sé að ræða áttunda rallið hjá Breka VE, þar af fjórða haustrallið. Þórunn Sveinsdóttir VE, sem einnig er leigð í rallið, tekur þátt í annað sinn en skipið rallaði fyrst sl. haust. Rætt er við Magnús Ríkarðsson skipstjóra.
„Þetta rall er hringurinn. Útkantar á íslensku lögsögunni svokallað djúpsjávarrall.“ segir hann og bætir við „Það er farið allt niður á 600 faðma,“ er haft eftir honum. Spurður um hvernig svona leiðangur sé frábrugðin hefðbundnum veiðum, segir Magnús að þetta sé mjög frábrugðið. „Já, þetta eru 155 stöðvar sem þeir taka. Það er togað í 40 mínútur á hverri stöð og það skráð. Allt er mælt og skráð. T.d. hitastig og selta.“
Gert er ráð fyrir að rallið taki 21 dag.