Smábátar veiddu fyrir 30 milljarða
Heildaraflaverðmæti smábáta á nýliðnu fiskveiðiári var um 30 milljarðar króna. Útflutningsverðmætið var um tvöföld sú upphæð. Tveir þriðju hluta aflans var þorskur. Þetta kom fram í ræðu Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra LS, á aðalfundi sambandsins.
„Vel aflaðist á nýliðnu fiskveiðiári. Heildarafli smábáta um 78 þúsund tonn. Afli krókaaflamarksbáta 60 þús. tonn, strandveiðar um 13 og aflamarksbátar 5 þúsund tonn. Tveir þriðju hlutar aflans var þorskur. Heildaraflaverðmæti þessa mikla afla nam um 30 milljörðum og útflutningsverðmætið tvöfalt hærri. Til samanburðar var verðmæti alls botnfisksafla á fyrstu 7 mánuðum þessa árs um 74 milljarðar. Smábátaeigendur geta því verið stoltir með sitt framlag fyrir land og þjóð.“
Fram kom í máli hans að heildarafli smábáta á fiskveiðiárinu hafi verið 77.755 tonn, sem sé nánast óbreytt frá fyrra ári. Smábátar veiddu alls 52 þúsund tonn af þorski, sem voru 24% veiðinnar. Aflaverðmæti smábáta voru 30 milljarðar, sem var 1,3 milljarði lægra en árið á undan.