Nýfengið rekstrarleyfi Arnarlax afturkallað
Rekstrarleyfi vegna fiskeldis Arnarlax í Ísafjarðardjúpi hefur verið afturkallað. Í úrskurði á vef Matvælastofnunar, segir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi afturkallað 10 þúsund tonna rekstrarleyfi fyrirtækisins í djúpinu. Leyfið var veitt í júní.
Úrskurðarnefndin felldi úr gildi hluta af rekstrarleyfi sem Matvælastofnun gaf út þann 29. febrúar 2024 til Arctic Sea Farm fyrir 8000 tonna hámarkslífmassa af regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi á þremur svæðum, Arnarnesi, Kirkjusundi og Sandeyri, þar af 5.200 tonnum af frjóum laxi. Felld var úr gildi ákvörðun um heimild til að stunda sjókvíaeldi á eldissvæðunum við Arnarnes og Kirkjusund, en ákvörðunin stofnunarinnar um veitingu leyfis til að stunda sjókvíaeldi við Sandeyri stendur óröskuð.
Fram kemur að nefndin hafi talið MAST ekki hafa framkvæmt heildstætt vegið mat á þeirri auknu áhættu af útbreiðslu dýrasjúkdóma og sníkjudýra, sem leitt gæti af því að veita undanþágu frá meginreglu um 5 kílómetra fjarlægð á milli eldisstöðva og óskyldra aðila. „Að áliti úrskurðarnefndarinnar yrði ekki ráðið af greinargerð stofnunarinnar að nokkurt heildstætt vegið mat hafi farið fram á þeirri auknu áhættu af útbreiðslu dýrasjúkdóma og sníkjudýra sem leitt gæti af því að veita greinda undanþágu frá þeirri viðmiðun um 5 km fjarlægðar milli ótengdra aðila. Yrði af þeirri ástæðu og með vísan til þeirra ríku skyldna sem hvíla á Matvælastofnun við útgáfu leyfa til framkvæmdar sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum, að fella ákvarðanir úr gildi hvað varðar þau tvö eldissvæði í leyfi til Arctic Sea Farm, þ.e. Arnarnes og Kirkjusund og leyfi Arnarlax að öllu leyti.”
Þá hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um að ógilda ákvörðun Matvælastofnunar um að endurnýja rekstrarleyfi sem stofnunin gaf út þann 21. mars 2024 til Arctic Sea Farm fyrir 7.800 tonna hámarkslífmassa af ófrjóum laxi í Patreks- og Tálknafirði, þ.m.t. með nýrri staðsetningu eldissvæðis við Kvígindisdal og breytingu á hvíldartíma.