Fékk ufsa í fyrsta skipstjóratúrnum

Deila:

Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum í vikunni, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir að Valtýr Bjarnason, sem hefur verið annar stýrimaður á Vestmannaey undanfarin ár, hafi farið í sinn fyrsta skipstjóratúr. Í færslunni segir að þetta hafi verið krefjandi veiðiferð enda leiðindaveður og lítið að hafa framan af. Hann hafi þó hitt á ufsa, sem sé gleðilegt.

„Það gekk í reyndinni allt smurt enda frábærir strákar hér um borð, sannkallaðir eðalpeyjar. Þá var ég í símasambandi við Birgi Þór skipstjóra og Egil Guðna stýrimann og þeir reyndust vel eins og alltaf. Það má segja að þeir félagar séu frábærir kennarar. Í veiðiferðinni var komið víða við og segja má að hún hafi verið bölvað hark enda leiðindaveður og sums staðar heldur lítið að hafa þó úr rættist að lokum. Við byrjuðum á Glettinganesflakinu en svo brast á norðanátt og við þurftum að flýja þaðan. Leiðin lá í Breiðamerkurdýpið, þaðan á Ingólfshöfðann og síðan aftur í Breiðamerkurdýpið. Haldið var á Öræfagrunn og þar fengum við ufsa. Síðan var ein nótt tekin í Skeiðarárdýpinu og að því loknu tekin tvö góð hol í Reynisdýpi. Loks var klárað á Pétursey og Vík. Eins og sést á þessu var þetta heldur erfiður fyrsti túr hjá mér sem skipstjóri en þetta hafðist. Aflinn var blandaður, mest af ufsa en síðan einnig þorskur og ýsa. Það var virkilega gleðilegt að ná þessum ufsa enda hefur hann verið okkur erfiður lengi,” er haft eftir Valtý.

Jón Valgeirsson á Breka tekur í svipaðan streng. Túrinn hafi einkennst af því að flýja veðrið. „Það bjargaði algjörlega túrnum að góður ufsaafli fékkst á Öræfagrunni og í Reynisdýpi. Ufsinn er góður millifiskur, ekki af stærstu gerð. Þessi túr var semsagt bölvaður óveðurstúr. Norðanáttin er slæm fyrir austan landið en mun skárri úti fyrir suðurströndinni þar sem er skjól af landinu,” segir Jón.

Skipin halda austur á laugardag.

Deila: