Góður gangur í Hafnarfirði

Deila:

Rætt við Lúðvík Geirsson hafnarstjóra og formann Hafnasambands Íslands

„Það er óhætt að fullyrða að hér í Hafnarfjarðarhöfn hefur verið góður gangur á síðustu árum, bæði hvað varðar umsvif á hafnarsvæðinu og eins uppbyggingu allrar aðstöðu. Við erum stöðugt að endurbæta aðstöðu í gömlu höfninni en einnig að huga að framtíðaruppbyggingu í tengslum við Straumsvíkurhöfn þar sem munu verða stóraukin umsvif á næstu árum,“ segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði.

Gríðarleg aukning í lausavöru

Lúðvík segir að mikil aukning hafi orðið í umferð stærri skipa um höfnina á síðustu árum og nefnir að árið 2010 hafi 350 skip komið til hafnar en í fyrra yfir 500 skip. Þá hafi einnig verið umtalsverð aukning á lönduðum afla frá íslenskum togurum síðustu árin og heildarafli haldist um og í kringum 40 þúsund tonn á ári. „Þetta hefur gerst þrátt fyrir að rússnesk skip komi ekki hingað lengur í kjölfar viðskiptabannsins eftir að Úkraínustríðið braust út. Mikil aukning hefur orðið í innflutningi á lausavöru í gegnum Hafnarfjarðarhöfn, bæði á salti og malarefni. Þá er að bætast við innflutningur á byggingarvörum, sementi og laxafóðri er einnig umskipað í höfninni. Öllu asfalti sem kemur til landsins er skipað upp í Hafnarfirði, hér landar Atlantsolía allri sinni vöru og hér í gegn fer nær allur útflutingur frá landinu á brotajárni svo dæmi séu tekin. Þetta eru vaxandi umsvif,“ segir Lúðvík.

Hann nefnir að árið 2010 hafi heildarinnflutningur á lausavöru í Hafnarfirði utan Straumsvíkurhafnar verið um 120.000 tonn en hefði farið yfir 200.000 tonn á síðasta ári. Útlit sé fyrir enn frekari aukningu í þessum vöruflutningum á komandi árum, auk þess sem vörumagn í gengum Straumsvík hafi verið stöðugt í kringum 800.000 tonn á ári. „Þessi aukning í skipakomum og vörumagni hefur aukið umsvif og tekjur hjá Hafnarfjarðarhöfn á umliðnum árum og á sama tíma hefur orðið meira en tvöföldun á komum farþegaskipa yfir sumartímann,“ segir hafnarstjórinn.

Nánar er rætt við Lúðvík í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Deila: