Aukin skipaumferð kallar á stöðugar framkvæmdir

Deila:

„Umferð um Vestmannaeyjahöfn hefur verið mjög mikil undanfarin ár og fer vaxandi. Við því erum við stöðugt að bregðast með framkvæmdum sem miða að því að bæta aðstöðuna eins og kostur er. Þau verkefni eru fjölmörg. Það er alltaf eitthvað um að vera hjá okkur, líf og fjör alla daga og við gerum okkar besta til að taka á móti öllum þeim skipum sem til okkar koma,“ segir Dóra Björk Gunnarsdóttir, hafnarstjóri í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjahöfn er í hópi stærstu fiski- og flutningahafna landsins, sú eina á stóru svæði, eða frá Hornafirði að Þorlákshöfn. Vestmannaeyjar eru einn mesti útgerðarstaður landsins, enda liggja þær vel við góðum fiskimiðum allt um kring. Fiskiskipin eru því áberandi í höfninni og mörg skip eiga þar heimahöfn.

Þurfum góða aðstöðu fyrir alla

Fjöldi fraktskipa kemur við í Vestmannaeyjum, sem dæmi hafa áætlunarskip á leið til Evrópu reglulega viðkomu þar. Þá er Herjólfur í stöðugum siglingum milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar, siglir að jafnaði 14 ferðir á dag og farþegafjöldinn sem nýtir sér þann ferðamáta milli lands og eyja eykst ár frá ári. Þá hafa skemmtiferðaskip einnig í töluverðum mæli komið við í Vestmannaeyjum. „Það koma hér við alls konar skip, stór og smá og við þurfum að hafa góða aðstöðu fyrir alla,“ segir Dóra. Landrými er takmarkað þannig að nýta þarf hvert svæði sem fyrir hendi er eins og kostur er og er skipulag þess rýmis sem til er eitt af stórum verkefnum hafnaryfirvalda. Dóra nefnir að lítið sem ekkert hafi orðið úr loðnuvertíð og því hafi samdráttur orðið í komum mjöl- og lýsisskipa miðað við fyrra ár. „En sem betur fer hafa aðrar uppsjávarveiðar gengið ágætlega á árinu,“ segir hún.

Skemmtiferðaskip sigldu hjá í sumar vegna veðurs

Skemmtiferðarskip hafa í auknum mæli komið til Vestmannaeyja undanfarin ár og segir hafnarstjórinn að þau hafi jákvæð áhrif á samfélagið í Eyjum. Mikil uppbygging hafi hin síðari ár orðið í ferðaþjónustu og ferðaþjónustuaðilar í Vestmannaeyjum hafi unnið frábært starf. Á liðnu sumri komu 87 skemmtiferðaskip við í Vestmannaeyjum en Dóra segir veðurfar hafa verið með þeim hætti og aðstæður í Eyjum að rúmlega 20 skip hafi þurft að sigla framhjá. Við því sé lítið að gera, ekki sé hægt að bæta aðstæður í höfninni þannig að þessi stóru skip komist þar inn í slæmu veðri. „Við verðum bara að bíta í þetta súra epli, aðstæður eru svo sérstakar hér,“ segir hún. Gera megi ráð fyrir að tekjumissir hafnarinnar vegna þeirra skipa sem sigldu hjá sé á bilinu 30 til 40 milljónir króna. „Almennt má segja að það er gríðarmikil umferð um Vestmannaeyjahöfn og hér eru á ferð skip af ýmsum stærðum og gerðum. Það er því að mörgu að hyggja og við erum alltaf að vinna í því að bæta aðstöðuna,“ segir Dóra. Fyrr á árinu kom í ljós að einn af bryggjuköntunum var ónýtur og segir hún það hafa verið mjög mikið högg fyrir höfnina sem mátti alls ekki við því að missa kantinn, plássleysið var ærið fyrir. „Þetta var mikið áfall fyrir okkur en það var ekkert annað í stöðunni en að bregðast við með því að horfa fram á veginn,“ segir Dóra.

Bæta aðstöðu fyrir ekjuskip

Framkvæmda- og hafnaráð hafi í kjölfarið ákveðið að endurbyggja kantinn í annarri mynd en var og útbúa við hann tímabundna aðstöðu fyrir ekjufraktskip (Róró skip). „Við verðum að láta hendur standa fram úr ermum varðandi framkvæmdir við kantinn og halda vel á spöðunum því Smyril line hefur lýst yfir áhuga á að hefja siglingar til Vestmannaeyja í lok ársins 2025,“ segir Dóra. Áhuga Smyril line á Vestmannaeyjum megi rekja til uppbyggingar ný fyrirtækisis, Laxeyjar sem hefur undanfarin misseri unnið að mikilli uppbygginu landeldis á laxi í Viðlagafjöru. Sú starfsemi sem þar verði kalli á að ekjuskip hafi góða aðstöðu í höfninni í Vestmannaeyjum. „Þetta er mikið verkefni og kostnaðarsamt en nauðsynlegt til að byggja upp til framtíðar,“ segir Dóra. „Umsvifin í höfninni hafa aukist mjög samhliða þeirri uppbyggingu sem Laxey stendur fyrir, en öll aðföng sem þarf til að byggja upp hafa komið í gegnum höfnina. Þetta hefur verið góð innspýting fyrir okkur.“

Greinin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Deila: