First Water leigir vinnsluhúsnæði
„Við gleðjumst yfir því að samningar náðust og erum spennt fyrir samstarfinu við Ísfélagið,” segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri landeldisfyrirtækisins First Water í fréttatilkynningu. Félagið hefur nú samið við Ísfélagið um afnot af vinnsluhúsi félagsins í Þorlákshöfn. Engin vinnsla hefur farið fram í húsinu síðan í lok september á þessu ári. Fyrirtækið hefur þegar fest kaup á vinnslubúnaði en reiknað er með að vinnsla fyrirtækisins í húsinu hefjist á fyrri hluta næsta árs.
„Eins sjáum við mikinn hag í því að flytja þessa starfsemi til Þorlákshafnar enda erum við fyrirtæki sem er staðsett í Ölfusi og kjósum eðlilega að hafa alla vinnslu okkar þar. Húsnæði Ísfélagsins og öll aðstaðan á svæðinu er til fyrirmyndar og hentar vinnslunni mjög vel. Þar af leiðandi er okkur ekkert að vanbúnaði að bretta upp ermar og hefjast handa,“ segir Eggert Þór í tilkynningunni.