Auðurinn við strendur landsins
„Vitafélagið – íslensk strandmenning var stofnað til að vekja þjóðina til vitundar um þann merka menningararf sem við eigum við strendur landsins. Þar er að finna fyrstu spor íbúa þess – af hafi komu þeir og til hafs héldu þeir til að afla sér mennta, tekna og vista og til hafs er enn haldið til að draga björg í bú. Við strendur landsins var komið upp aðstöðu til að taka á móti afla, það var saltað, flakað og kæst, staflað, pakkað og selt, drukkið dansað og kysst. Ljósker og vitar lýstu leið til hafnar og í misvistlegum húsakynnum þreifst marglit mannlífsflóran.“ Þetta segir Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins í stuttu spjalli en það merka félag hélt upp á 20 ára afmæli sitt á síðasta ári. Félagar eru nú um þrjú hundruð talsins.
Strandmenning var nýyrði
Það var laugardaginn 26. apríl árið 2003 sem hópur fólks kom saman í húsakynnum Siglingastofnunar í Kópavogi til að stofna fyrstu frjálsu félagasamtökin á Íslandi, sem höfðu að markmiði að efla áhuga og vitund fólks um þann auð sem er að finna við strendur landsins. Eftir nokkrar vangaveltur stofnfélaga, sem voru um 60, var ákveðið að félagið fengi heitið Íslenska vitafélagið með skírskotun til þess að vitinn væri vörður lífs og fengi nú það hlutverk að auki að varðveita strandmenninguna. Á aðalfundi félagsins 2009 var ákveðið að undirstrika að félagið legði áherslu á alla þætti strandmenningar og orðasambandinu „félag um íslenska strandmenningu“ skeytt aftan við nafnið. Enn var nafni félagsins breytt á aðalfundi 2015 og heitir það síðan Vitafélagið – íslensk strandmenning.
Sigurbjörg segir að stofnfélagarnir hafi viljað tengja félagið vitanum þar sem allir vissu hvað það orð merkti á meðan orðið strandmenning væri með öllu óþekkt í íslenskri tungu. Það hugtak hafi þá verið nýyrði sem Vitafélagið hafi kynnt til sögunnar og síðan lagt áherslu á í allri sinni starfsemi. Að stofnun Vitafélagsins komu fjölmargir einstaklingar auk félaga á borð við Fornleifavernd og Húsafriðunarnefnd, sem nú hafa verið sameinaðar í Minjastofnun Íslands, Siglingastofnun, Síldarminjasafnið og Þjóðminjasafnið. Síðan hafa bæst í hópinn atvinnuþróunarfélög, söfn og ýmis önnur félög auk fjölmargra einstaklinga.
Friðlýsing vita fyrsta verkefnið
Eitt af fyrstu verkefnum Vitafélagsins var að vinna að fyrstu friðlýsingu íslenskra vita í samvinnu við Húsafriðunarnefnd ríkisins árið 2003 og fór athöfnin fram í Gróttu skömmu eftir stofnun félagsins eða 1. desember sama ár. Friðlstu vitarnir sjö eru Arnarnesviti við Skutulsfjörð (1902), endurbyggður 1921, Bjargtangaviti (1913) endurbyggður 1923 og 1948, vitinn í Dyrhólaey (1927), Garðskagaviti hinn eldri (1897), Hríseyjarviti (1920), Malarrifsviti (1946) og Reykjanesviti (1907). Með friðuninni er lögð áhersla á varðveislu þessara merku menningarverðmæta. Þá má og minnast þess að félagið lét smíða nýtt ljóshús á gamla vitann á Garðskaga sem var tekið niður eftir smíði Garðskagavita hins nýja árið 1944. Var það sett upp í maí 2016 og fékk vitinn við það sína fyrri reisn. Vitinn sá er næstelsti viti landsins (og jafnframt næstelsta steinhús landsins), byggður 1897, hannaður af danska verkfræðingnum Thorvald Krabbe sem var starfsmaður dönsku vitamálastofnunarinnar. Fjölmargir leggja leið sína að Garðskaga til þess að njóta útsýnisins úr „nýja“ vitanum en nýlega var haldið upp á 80 ára afmæli hans. Gamli vitinn gegnir nú öðru hlutverki en áður og hefur hann oft veitt fólki innblástur og verið í aðalhlutverki í listsköpun, t.d. í myndlist og ljósmyndun.
Málþing og ráðstefnur
„Þótt strandmenning okkar Íslendinga hafi löngum einkennst af harðri lífsbaráttu, fátækt, vosbúð og basli þá er hún ekkert til að skammast sín fyrir nema síður sé. Hún er órjúfanlegur hluti af sögu þessarar þjóðar, hluti af rótum okkar sem við getum áfram nýtt okkur til lífsviðurværis, þó í annarri mynd sé,“ segir Sigurbjörg. Hún segir að starfsemi félagsins hafi ætíð einkennst af því að benda á tækifærin til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar sem hvarvetna blasi við.
„Það höfum við t.d. gert með fyrirlestrum í hverjum vetrarmánuði í Reykjavík undir yfirskriftinni Spegill fortíðar – silfur framtíðar og málþingum á landsbyggðinni á vordögum. Félagið átti einnig frumkvæði að sjö norrænum strandmenningarhátíðum sem haldnar voru á árunum 2011 til 2018. Með þeim var tilgangurinn að læra, miðla og kynnast því hvernig grannar okkar nýta sína strandmenningu. Á meðal félagsmanna er að finna gífurlega þekkingu á sögu og atvinnuháttum þjóðarinnar og það er einlæg von okkar að þjóðin öðlist smámsaman þekkingu á eigin sögu, og þá virðingu og þann kjark sem þarf til að horfast í augu við það hver hún er,“ segir Sigurbjörg.
Allstór hluti starfsemi Vitafélagsins í gegnum tíðna hefur snúist um útgáfu og fræðslu. Gefin eru út fréttabréf tvisvar á ári og einnig hefur félagið gefið út fyrirlestra og spil með myndum af 52 vitum landsins þar sem er að finna upplýsingar um sögu þeirra á íslensku, dönsku og ensku. Allt til upplýsingar og fræðslu. Félagið hefur tekið þátt í fjölmörgum ráðstefnum heima og erlendis, m.a. um sjávartengda ferðaþjónustu á norðurslóðum og um stöðu og framtíð strandmenningar Íslands.
Vitafélagið – íslensk strandmenning hefur m.a. margbent á nauðsyn þess að koma á sérstökum sjóði til bátaverndar, rétt eins og húsafriðunarsjóði, og á vegum félagsins hafa Íslendingar farið víða til að kynna sér bátasmíði og kennslu í bátasmíði. „Öflugt norrænt samstarf sem hófst með strandmenningarhátíðunum hefur m.a. leitt til þess að handverk og hefðir við smíði súðbyrtra báta var tekið á lista UNESCO í desember 2021 og er það eina menningararfleiðin sem Íslendingar eiga á lista UNESCO og eina samnorræna menningararfleiðin sem þar er að finna,“ segir Sigurbjörg Árnadóttir.