Gullver landaði karfa
Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar í Hafnarfirði í gærmorgun að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.
Aflinn var 103 tonn þar af ríflega helmingur karfi. Fjórðungur var þorskur og tæplega fimmtungur ufsi. Túrinn var um vikulangur að sögn Hjálmars Ólafs skipstjóra.
„Við fórum suður fyrir og síðan vestur fyrir land fyrst og fremst í þeim tilgangi að leita að karfa. Við hófum veiðar í Reynisdýpi og vorum þar eina nótt en þar fékkst ufsi. Síðan var haldið í Víkurálinn og fékkst karfi þar í og við Nætursöluna. Loks var haldið út á Dhornbanka en þar fengum við þorsk. Ég gæti trúað því að Gullver hafi aldrei komið á Dhornbankann áður. Við vorum nánast allan túrinn í ágætisveðri og við getum í reynd ekki kvartað undan neinu nema hvað að siglingarnar voru býsna langar,” segir hann.
Gullver hélt á ný til veiða síðdegis í gær, og stefndi að karfaleit.