Öryggið í öndvegi í 70 ár
Dynjandi er án efa þekktasta fyrirtækið hér á landi þegar kemur að sölu á öryggisbúnaði hvers konar enda algjör brautryðjandi á því sviði hérlendis. Fyrirtækið fagnar 70 árum á þessu ári en það var formlega stofnað 29. desember árið 1954 þótt það hafi hafið rekstur nokkru fyrr. Dynjandi hefur um langa hríð eflt vitund landsmanna um nauðsyn öryggisbúnaðar og persónuhlífa og þannig komið í veg fyrir alvarleg slys og dauðsföll á fjölda vinnustaða í gegnum tíðina.
Þrír ungir menn á Írafossi
Þótt Dynjandi sé þekkt sem verslunar- og innflutningsfyrirtæki í dag var upphafið það að þrír ungir menn sem unnu við Írafossvirkjun í Soginu áttu sér þann draum að starfa við eigið fyrirtæki. Settu þeir á laggirnar vélsmiðju og vélaverkstæði, Vélsmiðjuna Dynjanda sf. Þetta voru þeir Halldór Þórðarson, Björn Ásmundsson og Gunnlaugur P. Steindórsson sem allir voru vélstjórar í virkjuninni og höfðu skömmu áður hafið framleiðslu á olíutönkum og ýmsum búnaði þeim tengdum þegar þeir voru í vaktafríi þar eystra. Fyrirtækinu óx fljótlega fiskur um hrygg og á fáeinum árum höfðu þeir ráðið tugi manna í vinnu. Halldór skipti fljótlega um starfsvettvang en þeir Björn og Gunnlaugur héldu áfram rekstrinum. Gunnlaugur varð fljótlega forstjóri Dynjanda og stjórnarformaður og starfaði sem slíkur til dauðadags.
Hann fæddist árið 1925 í Reykjavík, lauk prófi í járnsmíði frá Iðnskólanum 1946 og prófi frá Vélskóla Íslands 1950. Hann stundaði sjóinn til ársins 1954 en hóf þá störf við Írafossvirkjun sem vélstjóri. En þar gerði hann stuttan stans. Dynjandi var fyrst til húsa í kjallaranum að Skipholti 1 í Reykjavík, þá Dugguvogi 13 uns fyrirtækið flutti í Skeifuna árið 1967 þar sem það er enn til húsa. Skrifstofa félagsins var fyrstu árin á Laugavegi. Rýmra er um Dynjanda í Skeifunni en var í fyrstu og fyrir fáeinum árum bætti fyrirtækið við sig lagerhúsnæði við Lambhagaveg. Gunnlaugur P. Steindórsson starfaði sem forstjóri til dauðadags en Steindór sonur hans varð framkvæmdastjóri við hlið hans árið 1985 en hann hafði hafið störf í fyrirtækinu árið 1981. Þeir feðgar störfuðu því saman í þriðjung aldar.
Umsvifamikil vélsmiðja
Vélsmiðjan Dynjandi fékk fljótlega næg og fjölbreytt verkefni og smíðaði m.a. miðstöðvarkatla fyrir olíukyndingar í vaxandi borg en smám saman dró úr þeim umsvifum og Gunnlaugur og félagar sneru sér að ýmsum verkefnum fyrir Hitaveitu Reykjavíkur og unnu m.a. að hitaveituframkvæmdum í Hlíðahverfi, Laugarásnum og víðar. Aðalverkefni Dynjanda urðu hins vegar viðgerðir á díselvélum í togurum Bæjarútgerðar Reykjavíkur og fleiri útgerðarfyrirtækja svo og vélaviðgerðir, viðhald og járnsmíði í ýmsum verksmiðjum, iðnfyrirtækjum og stórbyggingum í borginni. Samhliða þessu flutti Dynjandi inn margvíslegan búnað sem þurfti til starfseminnar og ekki var hægt að kaupa hér heima, m.a. á miðstöðvardælum, blásurum og viftum fyrir hitalagnir og loftræstikerfi en einnig pakkningum, gufugildrum, lokum og stillitækjum fyrir smiðjuna.
Gvendur Jaki og derhúfurnar
Það var um miðjan 7. áratuginn sem Dynjandi hóf innflutning á öryggishlífum fyrir starfsmenn og þróaðist félagið smám saman yfir í verslunarfyrirtæki og varð brautryðjandi á sviði öryggismála í íslensku atvinnulífi. Gunnlaugur segir frá þessu ferli í samtali við Tímann í september 1973: „Á árinu 1965 byrjuðum við að flytja inn vinnuhlífar fyrir starfsmenn í hættulegum iðngreinum. Byrjuðum á svokölluðum öryggishjálmum, sem þá voru lítt óþekktir hér á landi og lítið notaðir. Má segja að erlendu verktakafyrirtækin, er unnu að álverinu í Straumsvík og Búrfellsvirkjun hafi innleitt þessa hjálma hér á landi, ásamt öðrum öryggishlífum fyrir verkafólk, en notkun öryggishjálma var orðin útbreidd erlendis. Þessir öryggishjálmar þykja nú ómissandi á mörgum vinnustöðum og eru nú notaðir í öllum smiðjum, hjá byggingaverktökum, skipafélögum, við uppskipun og vöruafgreiðslu. Ennfremur við matvælaiðnað og í sláturhúsum, en í síðarnefnda tilfellinu eru notaðir léttir hattar, sem bæði eru öryggishjálmar og stuðla að hreinlæti.“
Gunnlaugur segir í viðtali við Morgunblaðið sumarið 1999: „Eitt af því sem menn skildu fljótt var nauðsyn þess að nota hjálma. Atvinnurekendur voru þó oft fúsari að stuðla að notkun þeirra en starfsmennirnir. Frægt er orðið þegar Eimskipafélagið ákvað að verkamennirnir skyldu nota hjálma við störf sín en á þeim tíma unnu menn niðri í lestum. Þeir vildu ekki nota hjálmana og leituðu ásjár hjá Guðmundi jaka. Viðbrögð hans voru þau að menn þyrftu þess ekki, þeir gætu bara notað derhúfurnar sínar áfram. Ég hafði gaman af því, mörgum árum seinna þegar Guðmundur bað mig að auglýsa í Vinnunni, að minna hann á þetta. Þá var hann búinn að skipta um skoðun,“ segir Gunnlaugur í viðtalinu.
Nánar er fjallað um Dynjandi í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.