Óska eftir samstarfi um nýtingu 300 tonna
Byggðastofnun óskar eftir samstarfsaðilum úr Grímsey til að nýta 300 tonna viðbótaraflaheimild til byggðarinnar. Viðbótin er án vinnsluskyldu. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. Um er að ræða viðbótarheimild fyrir þetta fiskveiðiár og tvö næstu.
Fram kemur að endanlegt val á samstarfaðilum muni byggja á traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjanda og trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi.
Meginmarkmið verkefnisins er að auka byggðafestu í þeim sjávarbyggðum sem :
- standa frammi fyrir alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi eða ætla megi að samdráttur í greininni myndi skapa slíkan vanda
- eru háðastar sjávarútvegi og eiga minnsta möguleika á annarri atvinnuuppbyggingu
- eru fámennar, fjarri stærri byggðakjörnum og utan fjölbreyttra vinnusóknarsvæða
Í því skyni er að stefnt að uppbygginu í sjávarútvegi sem:
- skapar og viðheldur sem flestum heilsársstörfum fyrir bæði veiðar, vinnslu og afleidda starfsemi í viðkomandi sjávarbyggðum
- stuðlar að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma
Endanlegt val á samstarfaðilum mun byggja á eftirfarandi þáttum:
- trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi
- fjölda heilsársstarfa
- sem bestri nýtingu þeirra veiðiheimilda sem fyrir eru í byggðalaginu
- öflugri starfsemi til lengri tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina
- jákvæðum áhrifum á önnur fyrirtæki og samfélagið
- traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjanda
- lönduðum botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2024.
Fram kemur að magn aflaheimilda sé með fyrirvara um úthlutun matvælaráðuneytisins til Aflamarks Byggðastofnunar ár hvert.
Loks segir að umsóknum sem ekki falli að markmiðum verkefnisins verði hafnað.