Sammála markmiðum ríkisstjórnarinnar
„Þrjú hundruð manns mættu til starfa í landvinnslum Samherja á Dalvík og Akureyri í upphafi árs. Sjómenn á skipum félagsins eru um tvö hundruð, tvöfaldar áhafnir eru á skipunum. Fiskvinnsluhúsið á Dalvík er stærsti vinnustaðurinn þar á eftir sjálfu sveitarfélaginu og gegnir því afar mikilvægu hlutverki.“
Þetta kemur fram í orðsendingu frá Þorsteini Má Baldurssyni, forstjóra, á vef Samherja. Þar kemur fram að ísfisktogarar fyrirtækisins hafi haldið til veiða 2. janúar en uppsjávarskipið Vilhelm Þorsteinsson og frystitogarinn Snæfell 3. janúar. „Það má því segja að hjól atvinnulífsins séu farin að snúast af krafti eftir jóla- og nýársfrí starfsfólks.“
Rakið er að starfsfólki í landeldi fyrirtækisins hafi fjölgað á n´ýliðnu ári. Í vinnsluhúsinu í Sandgerði hófst starfsemi á nýjan leik 2. janúar og í Öxarfirði daginn eftir. Starfsfólk eldisins stóð vaktina um jól og áramót eins og alla aðra daga ársins.
Við þessi störf bætist fjöldi fólks í ýmsum öðrum þáttum starfseminnar, auk þjónustuaðila, að því er segir í fréttinni.
Þorsteinn segist vera nokkuð bjarsýnn á árið. Hann sé sammála nýrri ríkisstjórn um að auka verðmætasköpun og stöðuleika í efnahagslífinu. „Lykilatriði í þessum efnum er að útflutningsgreinar okkar séu samkeppnishæfar á alþjóðlegum mörkuðum. Ég tel að sjávarútvegur geti lagt töluvert af mörkum til þessa mikilvæga markmiðs og vonandi ber okkur gæfu til að atvinnugreinin geti átt gott og árangursríkt samstarf við stjórnvöld um aukna verðmætasköpun í útgerð, fiskvinnslu og fiskeldi.”
Þorsteinn bendir á að Ísland sé að keppa við vinnslur á hvítfiski í Póllandi og Kína þar sem launakostnaður sé margfalt lægri. „Íslenskur sjávarútvegur er að velta innan við 400 milljörðum króna á meðan sjávarútvegurinn í Noregi veltir um 2.300 milljörðum króna. Við erum með öðrum orðum ekki stór í þessum samanburði.”
Verðmætasköpunin byggist að sögn forstjórans meðal annars á flókinni og tæknilegri vinnslu, bæði til sjós og lands. „Tækniframfarir og fjárfestingar eru forsendur samkeppnishæfni og fyrirtækin þurfa að tryggja viðskiptavinum sínum gæðaafurðir alla daga ársins. Þessar staðreyndir skulum við hafa í huga í allri umræðunni, sem á það til að fara út og suður,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf.”