Hvassviðri á miðunum
Gullver NS landaði 99 tonnum á Seyðisfirði á miðvikudag. Aflinn var að mestu þorskur og ýsa. Frá þessu er sagt á vef Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við Þórhall Jónsson skipstjóra. Hann segir að á ýmsu hafi gengið í túrnum.
„Við byrjuðum á að leita að ufsa í Berufjarðarál og á Papagrunni með afar litlum árangri. Þá var haldið í Hvalbakshallið, Litladýpið, á Fótinn, Gerpisflak og í Reyðarfjarðardýpið. Ég var að vonast til að fylla skipið en hann brast á með skítaveðri tvo síðustu sólarhringana. Það hvessti svo hressilega að það var á mörkunum að hægt væri að toga. Janúar er oft erfiður veðurfarslega og þetta kemur ekkert á óvart. Við höldum til veiða strax að löndun lokinni og hann spáir þokkalega allavega fram á sunnudag,” sagði Þórhallur.