Makríldeilan fer fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur mun taka afstöðu til þess hvort ríkið sé skaðabótaskylt vegna úthlutunar makrílkvóta til Vinnslustöðvarinnar á árunum 2011 til 2018. Landsréttur hefur sagt að svo sé og dæmt ríkið til að greiða Vinnslustöðunni (og Hugin, sem Vinnslustöðin keypti á meðan málarekstri stóð) samtals 625,5 milljónir króna í bætur.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að íslenska ríkið bæri skaðabótaábyrgð vegna þess að Huginn og Vinnslustöðinni hefði verið úthlutað minni aflaheimildum á þessu tímabili en skylt var samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Landsréttur staðfesti þann dóm en lækkaði bæturnar.
Í upphafi var um að ræða sjö sjávarútvegsfyrirtæki sem kröfðust rúmlega 10 milljarða króna vegna aflaheimdila á makríl á árunum 2011 til 2018. Hin félögin féllu frá málsókn sinni til að sýna samstöðu vegna kórónuveirufaraldursins. Eftir stóðu Vinnslustöðin og Huginn úr Vestmannaeyjum.
Ríkið hefur tapað málinu á tveimur dómstigum. Nú mun það koma til kasta Hæstaréttar.
Nánar má lesa um málið á Vísi.