Huginn VE tók niðri

Áhöfn björgunarskipsins Þórs í Vestmannaeyjum var á fjórða tímanum kölluð út á mesta forgangi þegar nótaskipið Huginn VE55 tók niðri í innsiglingunni við Hörgárgarð gegnt Skansinum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu. Fram kemur að skipið hafi misst vélarafl á leið inn innsiglinguna með þessum afleiðingum.
Auk Þórs var Lóðsinn í Eyjum í aðgerðum í dag.
„Komið var taug aftur úr Huginn í Lóðsinn sem togaði í hann á meðan Þór lagðist með stefnið á síðu Hugins aftarlega til að ýta á hann til að snúa skipinu. Þessar aðgerðir gengu fljótt og vel og losnaði Huginn fljótlega. Lóðsinn dró svo skipið að bryggju,” að því er fram kemur í tilkynningunni.