SFS dregur upp kolsvarta mynd af strandveiðum

SFS hefur tekið saman upplýsingabækling um strandveiðar. Í stuttu máli finna samtökin veiðunum flest til foráttu. Í ritinu kemur fram að aukinn strandveiðiafli þýði að afli sé tekinn af öðrum, strandveiðibátum hafi fjölgað linnulítið og að gera megi ráð fyrir tvöföldun aflans, ef 48 dagar verða tryggðir. 12 þúsund tonn af þorski voru veidd í strandveiðikerfinu á síðasta ári. Landssamband smábátaeigenda gerir ráð fyrir að með 48 dögum verði aflinn um 14 þúsund tonn. Aukning um 2 þúsund tonn á milli ára.
Í samantektinni kemur fram að strandveiðar séu efnahagsleg sóun og að afkoman sé lök. Þess má geta að bátarnir eru bundnir við bryggju að lágmarki 317 daga ársins.
Einnig er bent á að meðalaldur strandveiðimanna sé hár, 59 ár, og því lítið gefið fyrir að veiðarnar auki nýliðun. Loks er fundið að því að strandveiðimenn fái aflaheimildr að gjöf, á meðan aðrir kaupi þær eða leigi.
Helstu niðurstöður SFS:
Sífellt hefur verið aukið við strandveiðar á kostnað annarra útgerðarflokka frá því að þær voru teknar upp.
• Ef auka á strandveiðar enn frekar verður að taka það frá öðrum þorskveiðum.
• Strandveiðibátum hefur fjölgað linnulítið undanfarin ár og magn í hverri löndun hefur einnig aukist ár frá ári.
• Gangi áform ríkisstjórnar eftir um að tryggja 48 daga strandveiði má með varfærnu mati gera ráð fyrir tvöföldun þess magns sem ráðstafað er til veiðanna.
• Mikið af afla strandveiðibáta er fluttur til vinnslu utan landsteinanna, með tilheyrandi tekjutapi fyrir fiskvinnslur og fiskverkafólk.
• Tekjur hins opinbera og sveitarfélaga af strandveiðibátum eru litlar.
• Afkoma strandveiðibáta er slök miðað við aðra útgerðaflokka og tekjuskattsgreiðslur þar með litlar.
• Aflahlutur strandveiðisjómanna er lítill og útsvarstekjur sveitarfélaga af veiðunum þar með minniháttar.
• Strandveiðibátar fá veiðiheimildir að gjöf, á meðan aðrir kaupa þær eða leigja.
• Meðalaldur fjörutíu öflugustu strandveiðisjómannanna er 59 ár, en hafa ber í huga að eitt markmið strandveiða var að auka nýliðun.
• Hjá þorra strandveiðisjómanna er bókhald ógagnsætt, sem er andstætt því sem kallað er eftir almennt í sjávarútvegi.
• „Líf í höfnum“ glæðist lítið, með stöku undantekningu, meðan á strandveiðum stendur.
• Aukning strandveiða dregur úr lífi í höfnum sem stafar frá starfsemi tengdri fiskveiðum á öðrum árstíma en yfir hásumarið.
• Stór hluti þeirra strandveiðisjómanna sem landaði á Vesturlandi og Vestfjörðum í fyrra var með heimilisfesti á höfuðborgarsvæðinu.
• Gæði fisks eru lökust um hásumarið þegar strandveiðar standa sem hæst.
• Strandveiðar eru efnahagsleg sóun, eins og fjármálaráðherra hefur réttilega bent á.