Samherjatogararnir aflahæstir 2024

Deila:

Systurskip Samherja, Kaldbakur EA 1, Björgúlfur EA 312 og Björg EA 7 eru í þremur efstu sætum yfir aflahæstu togara ársins 2024. Á þetta er bent á vef Samherja. Þar er tíundað að aflahæsti togarinn hafi verið Kaldbakur. Afli skipsins var 8.933 tonn. Í öðru sæti var Björgúlfur, með 8.687 tonn og í þriðja sæti var Björg með 8.186 tonn á síðasta ári. Vísað er í samantekt Aflafrétta.

Fram kemur að togararnir sjái landsvinnslum félagsins á Akureyri og Dalvík fyrir hráefni. Þar starfi um þrjú hundruð manns en sjómenn á skipum Samherja séu um tvö hundruð. Tvöföld áhöfn er á hverju skipi.

Í fréttinni er rætt við Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja.

„ Í sjálfu sér er ekki sérstakt markmið að vera í efstu sætum á þessum listum, verkefnið er fyrst og fremst að koma á tilsettum tíma með góðar afurðir til vinnslu. Hráefnisstýring er stór þáttur í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja, þar sem veiðar, vinnsla og sala afurða fara saman. Til þess að sjá vinnslunum fyrir hráefni, þurfa skipin að landa sex til sjö sinnum í viku, sem þýðir í raun að þau landa stundum tvisvar sinnum í sömu vikunni. Stýring veiða getur því á köflum verið nokkuð flókin. Okkur tókst að halda vinnslunum gangandi alla daga ársins nema tvo vegna óveðurs, enda kallar markaðurinn eftir stöðugu framboði.“

Sjá nánar hér

Deila: