Togarar í landi vegna brælu

Deila:

Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE liggja báðir í höfn í Eyjum vegna veðurs, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.

Vestmannaey kom að sögn til hafnar á föstudag eftir að hafa verið í rúman sólarhring að veiðum. Birgir þór Sverrisson skipstjóri segir í frétt á vefnum að lítið sé hægt að róa. „Það er bölvuð ótíð og ég geri varla ráð fyrir að unnt verði að komast á sjó fyrr en á fimmtudagskvöld eða á föstudag. Við erum ósköp rólegir enda byrjar engin vertíð hér af krafti fyrr en loðna lætur sjá sig og það verður varla fyrr en seinni part mánaðarins,” er haft eftir honum.

Fram kemur að Bergur sé sömuleiðis í landi eftir að hafa verið að veiðum fyrir austan. Þar var ágæt veiði; mest þorskur og ýsa.

Deila: