Taka við fyrstu hrognunum í vor

Deila:

Halldór Ragnar Gíslason, framkvæmdastjóri.

„Að baki fyrirtækinu eru öflugir hluthafar og svo erum við með mjög öflugt og reynslumikið starfsfólk og  stjórn,“ segir Halldór Ragnar Gíslason, framkvæmdastjóri Thor landeldi ehf. í samtali við Sóknarfæri. Fyrirtækið hefur fengið rekstrarleyfi fyrir 13 þúsund tonna hámarkslífmassa á laxi við Þorlákshöfn í Ölfusi, sem á að nægja fyrir 20 þúsund tonna framleiðslu á ári. Eldið verður reist á lóð sem er á milli stöðva landeldisfyrirtækjanna GeoSalmo annars vegar og First Water hins vegar.

Fyrsta skóflustungan að nýrri seiðaeldisstöð var tekin síðastliðið sumar en sú framkvæmd gengur vel. Lóðin í heild er 25 hektarar „Við erum komin langleiðina með seiðastöðina og stefnum á að taka við hrognum með vorinu. Ári seinna, snemma vors 2026, er stefnan á að fyrsti fiskurinn fari í áframeldi hjá okkur,“ útskýrir Halldór. Áformað er að seiðin verði 11-12 mánuði í ferskvatni og svo 14 mánuði í sjó, áður en 4,5 kílóa sláturstærð er náð.

Byggja stöðina upp í skrefum

Í fyrsta fasa er stefnt á 6.000 tonna framleiðslu á ársgrundvelli. Halldór segir að eldið verði byggt upp í nokkrum skrefum. Það helgist meðal annars af fjármögnun og afhendingu rafmagns en einnig er þörf á að sjá hvernig vatnið á svæðinu bregst við þessari nýtingu sem fyrirhuguð er vestur af Þorlákshöfn. Thor ásamt öðrum félögum í nágrenninu og sveitarfélaginu verða með sameiginlega ferskvatnsvöktun á svæðinu.

Ítarlega er rætt við Halldór Ragnar nýútkomnu tölublaði Sóknarfæris.

Deila: