Mikil tækifæri fyrir konur í fiskeldi

„Nú þegar starfa margar konur í fiskeldi en tilgangur okkar með þessum félagsskap er að gera hlut kvenna enn stærri í greininni,“ segir líffræðingurinn Eva Dögg Jóhannesdóttir um félagsskapinn Konur í eldi sem hún og fleiri konur innan fiskeldisgreinarinnar hafa staðið að stofnun á. Eva segir að núna stefni í að þessi hópur taki höndum saman við félagið Konur í sjávarútvegi og stofni fiskeldisdeild innan þess félags.
„Þó við teljum okkur ekki alveg tilheyra þeirri skilgreiningu að vera starfandi í sjávarútvegi þá liggja leiðir kvenna í sjávarútveg og kvenna í fiskeldi saman á ýmsum sviðum. Okkar hópur er skipaður bæði konum sem starfa í fjölbreyttum störfum í fiskeldi og einnig í þjónustu í kringum greinina. Við teljum að við höfum styrk hver af annarri með því að hafa með okkur þennan formlega vettvang. Hugmyndin kviknaði á ráðstefnunni Lagarlíf sem haldin er einu sinni á ári þar sem við höfum fundið mjög vel hversu miklu máli skiptir að hittast augliti til auglitis og bera saman bækur okkar,“ segir Eva.

Eva Dögg starfar hjá fyrirtækinu Bláum akri sem veitir þjónustu á sviði umhverfisvöktunar og heilbrigðis eldisfisks. Hér er hún á eldissvæði við vinnu sína.
Atvinnutækifæri fyrir konur
Fyrir utan að konur í fiskeldi eigi sér sameiginlegan vettvang segir Eva það tilgang félagsskaparins að stuðla að aukinni fræðslu um atvinnugreinina almennt og ekki síður að vinna að því að opna augu stærri hóps kvenna fyrir þeim tækifærum sem þær geti átt í störfum í fiskeldi á Íslandi.
„Þó að störfin í fiskeldi séu mjög fjölbreytt þá getum við sagt að margar konur vilji vera í stígvélunum í sínum daglegu störfum ekkert síður en karlarnir. Tæknin í fiskeldi orðin mjög mikil og þess vegna snúast mjög fá störf í greininni um líkamlegt erfiði. Svo held ég að það sé líka mikils virði fyrir uppbyggingu fiskeldisins og fjölgun starfa að í því sé mikil kynjablöndun. Það gerir bara vinnustaðina í greininni sterkari. Þess vegna viljum við reyna að opna augu kvenna á öllum aldri fyrir þessum vettvangi og ekki síst ungra kvenna. Í fiskeldinu eru mikil tækifæri fyrir konur til framtíðar,“ segir Eva.
Nánar er rætt við Evu í nýútkomnu tölublaði Sóknarfæris.