Alger umskipti á Vestfjörðum

„Fiskeldi hefur snúið allri þróun við hér á Vestfjörðum. Úr hnignun í uppbyggingu, sama til hvaða mælikvarða við horfum. Þetta sjáum við vel sem erum fædd hér og uppalin. Í stað fækkunar íbúa er okkur stöðugt að fjölga á Vestfjörðum og helsta áhyggjuefnið er að ekki sé til nægt húsnæði. Ég sé það vel í gegnum störf mín hversu víða við erum að kaupa þjónustu og þannig verður áhrifanna vart hvort heldur er hjá einyrkjum í byggingariðnaði eða stórum þjónustufyrirtækjum, svo dæmi sé tekið. Og þessi uppbygging á bara eftir að aukast enn frekar á komandi árum,“ segir Baldur Smári Einarsson, fjármálastjóri fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish á Vestfjörðum sem er meðal stærri fyrirtækja í sjókvíaeldi hér á landi.
Fyrirtækið er með 120-130 manns í vinnu, stefnir á að framleiða 15 þúsund tonn af laxi í ár og að ársframleiðslan aukist í 25 þúsund tonn á næstu fimm árum. Baldur hóf störf í fjármáladeild Arctic Fish árið 2019 en tók við starfi fjármálastjóra í ársbyrjun 2024 og segir það hafa verið mikið lærdómsferli að fylgja vexti fyrirtækisins eftir.

Baldur Smári ásamt hópi grunnskólabarna úr Bolungarvík sem fengu kynnisferð á eldissvæði fyrirtækisins.
„Hugsun okkar sem vinnum við fjármálastjórn fyrirtækisins er nákvæmlega sú sama og á öllum öðrum sviðum starfseminnar, þ.e. að hækka stöðugt rána hvað gæði varðar og gera sífellt betur. Einmitt sú áskorun gerir vinnuna svo skemmtilega,“ segir hann.
Skipti úr varnarbaráttu yfir í sóknarleik!
Baldur er borinn og barnfæddur Bolvíkingur og hefur búið þar alla tíð að frátöldum fjórum vetrum þegar hann var í háskólanámi í reikningshaldi og endurskoðun í Reykjavík. „Lengstum hef ég starfað við endurskoðun en á hrunárinu 2008 hóf ég störf við Sparisjóð Bolungarvíkur og gekk þar í gegnum lærdómsríkan tíma eftirhrunsáranna þar sem verkefnið var að bjarga sjóðnum frá þroti. Og það tókst að koma honum í gegnum þann tíma og síðan rann sjóðurinn inn í Landsbankann,“ segir Baldur sem hvarf í nokkur ár aftur til starfa við endurskoðun áður en hann greip það tækifæri að koma til starfa hjá Arctic Fish árið 2019.
„Þetta var mikil áskorun, fyrirtæki í hraðri uppbyggingu en ég kom hingað til starfa einmitt á þeim tímapunkti þegar komið var að fyrstu slátrun. Síðan þá hefur þetta verið samfelldur uppbyggingartími, sama hvort horft er til framkvæmda, vaxtar í framleiðslu eða fjölgunar starfsmanna. Þetta var verulega ólíkt því umhverfi sem ég hafði verið í um árabil í sparisjóðnum þar sem við vorum stöðugt í varnarbaráttu. Hér er bara sókn á öllum sviðum,“ segir Baldur.
Nánar er rætt við Baldur í nýútkomnu tölublaði Sóknarfæris.