Brostið á með blíðu

Deila:

Vestmannaeyjaskipin Bergur VE og Vestmannaey VE hafa verið að fiska vel að undanförnu. Vestmannaey landaði fullfermi í Eyjum á sunnudag og Bergur landaði fullfermi á laugardag og aftur í dag.

Frá þessu segir á vef Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við Jón Valgeirsson á Bergi, sem segir að þeir hafi verið að undanförnu á Ingólfshöfðanum – þar hafi verið fantaveiði.

„Í fyrri túrnum upplifðum við loksins gott veður. Við vorum í reyndinni að veiða í himneskri blíðu og það var kominn tími til eftir langa brælutíð. Í seinni túrnum var farið beint á Höfðann og veiðin byrjaði heldur rólega fyrst en svo brast á með mokveiði. Þarna var fiskurinn í loðnu. Við vorum einungis í tvo sólarhringa á miðunum þannig að skipið var fyllt á stuttum tíma. Þetta var þokkalegasta blanda sem þarna fékkst; ýsa, þorskur, ufsi og koli. Allan tímann var alger blíða og flottheit og mikið er maður feginn að fá loksins svona veður,” sagði Jón.

Deila: