Lönduðu úrvalsloðnu fyrir austan

Deila:

Barði NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með rúmlega 300 tonn af loðnu. Vinnsla á loðnunni hófst þegar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins. Haft er eftir Þorkatli Péturssyni að loðnan hafi fengist fyrir norðan, í Reykjarfjarðarálnum út af Ströndum.

„Við köstuðum líka við Snæfellsnes en þar var loðnan hryngd og við fengum nánast einungis kall þar. Það var kastað þrisvar í Reykjafjarðarálnum og þar fékkst stór og falleg loðna og í prufum sem teknar voru reyndist vera um 60% hrygna. Hrognafyllingin var um 19%. Þetta er því örugglega fínasta hráefni fyrir vinnsluna,” sagði Þorkell.

Grænlenska skipið Polar Amaroq kom með 485 tonn af loðnu til Neskaupstaðar í gærkvöld. Aflinn fékkst á sömu slóðum og reyndist falleg Japansloðnu, 60% hrygna.

Haft er eftir gæðastjóra í fiskiðjuverinu að loðnan sé gæðahráefni, algjör úrvalsloðna.

Deila: