Úr fjártæknigeiranum í fiskeldið

Rætt við Ólöfu Helgu Jónsdóttur sem tók við starfi mannauðsstjóra fiskeldisfyrirtækisins Kaldvíkur ehf. á haustmánuðum.
Ég kem inn í fiskeldið úr allt öðru umhverfi í atvinnulífinu, finnst þetta mjög skemmtileg og spennandi áskorun en þegar allt kemur til alls þá eru verkefnin um margt áþekk og í fjártæknigeiranum þar sem ég starfaði áður. Enda er fólk alltaf fólk og sömu þættirnir sem er verið að vinna með í mannauðsstjórnun, hver svo sem starfsemin er. Kaldvík er mjög áhugavert fyrirtæki í vexti og framþróun, eins og fiskeldisgreinin í heild,“ segir Ólöf Helga Jónsdóttir sem á haustmánuðum hóf störf sem mannauðsstjóri Kaldvíkur ehf., sem áður var Fiskeldi Austfjarða – Ice fish farm.
Hjá fyrirtækinu eru nú um 230 starfsmenn á 12 starfsstöðvum á landinu en meirihluti starfsmanna er á Austfjörðum. Sjálf starfar Ólöf Helga á skrifstofu fyrirtækisins í Reykjavík en hún segist leggja mikið upp úr að heimsækja starfsstöðvarnar og starfsfólkið.
Bakgrunnur í greiðslumiðlun og fjártækni
Ólöf Helga er menntuð í viðskiptafræðum, starfaði um tíma í kvikmyndageiranum en því næst lá leiðin til Borgunar. Þar þróaðist starf hennar inn á svið mannauðsstjórnunar en starfsmenn voru á þessum tíma um 250 talsins. Á sama tíma varð Borgun hluti af alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækinu Teya og leiddi Ólöf Helga uppbyggingu mannauðsstjórnunar hjá Teyja samhliða því að stýra þeim þáttum hjá Borgun. Í framhaldinu færðist hún meira yfir í rekstrarstörf, tók við starfi aðstoðarforstjóri Teya á Íslandi og síðan stöðu rekstrarstjóra Paymentology, dótturfélags Teya þar sem starfsmenn voru í heild um 700 talsins.
„Þar starfaði ég í tvö ár og hafði bæði með höndum rekstrar- og mannauðsmál en síðan lá leiðin hingað til Kaldvíkur. Fiskeldið er alveg nýr heimur fyrir mér en þó ég hafi komið úr heimi þar sem blönduðust saman fjármál og tækni þá verður manni fljótt ljóst hversu margt er líkt og sameiginlegt. Áskoranirnar eru á margan hátt þær sömu enda erum við öll með sömu grunnþarfirnar. Margt er auðvitað mjög frábrugðið en í grunninn viljum við öll að hlutirnir sé gerðir á framúrskarandi hátt, hvort heldur er í fjártækni eða fiskieldi.“
Ítarlega er rætt við Ólöfu Helgu í nýútkomnu tölublaði Sóknarfæris.