Nýja skipið afhent

Deila:

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra afhenti í dag nýtt hafrannsóknaskip, Þórunni Þórðardóttur HF 300, til Hafrannsóknastofnunar. Þorsteinn Sigurðsson forstjóri tók við skipinu fyrir hönd stofnunarinnar og blessaði sr. Laufey Brá Jónsdóttir skipið að því loknu.

Frá þessu greinir á vef Stjórnarráðsins. Þar kemur fram að skipið sé 70 m langt og 13 m breitt stálskip, svokallað tvíorkuskip sem búið sé rafknúnum skrúfum. Meginorkugjafi skipsins er olía en um borð eru einnig stórar rafhlöður sem gera alla orkunýtingu hagkvæmari og umhverfisvænni.

Skipið var smíðað í Vigo á Spáni.

„Með öflugum rannsóknum getum við tryggt að ákvarðanir sem varða nýtingu auðlinda hafsins verði teknar á traustum vísindalegum grunni. Slíkar ákvarðanir eru ekki aðeins nauðsynlegar fyrir efnahagslega velferð þjóðarinnar, heldur einnig fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærni auðlindanna til framtíðar“ sagði atvinnuvegaráðherra í ræðu sinni. „Í þessu samhengi gegnir Hafrannsóknastofnun lykilhlutverki, þar sem þekking og ráðgjöf stofnunarinnar er grundvallarforsenda þess að við náum markmiðum okkar um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.“

Deila: