Rafmagnsrof getur haft afdrifaríkar afleiðingar

Fyrirtækið MD Vélar hefur á undanförnum árum lagt ríka áherslu á sölu varaaflsbúnaðar í samstarfi við þýska fyrirtækið Arctic Auxiliary Systems. Fyrirtækið er nú komið með umboð hér á landi fyrir þennan búnað.
Margar stærðir og útfærslur
„Eigendur AX eru reynslumiklir menn með góðar tengingar við birgja sem skilar sér í einstakri þjónustu og geta þeir því oft boðið styttri afgreiðslutíma en gengur og gerist. Þarna er mikil þekking á hönnun varaaflsstöðva sem standast t.d. veðurfar við erfiðustu aðstæður á norðurslóðum. Við sáum því fljótt að þetta er búnaður sem hentar mjög vel fyrir íslenska markaðinn. Því til viðbótar er það mikill kostur að varaaflsstöðvarnar bjóðast í mörgum stærðum og útfærslum eftir því sem best hentar hverjum viðskiptavini, t.d. í gámum eða á ramma,“ segir Hjalti Örn Sigfússon, framkvæmdastjóri MD Véla.
„Við erum í mjög nánu samstarfi við eigendur AX og höfum beinan aðgang að þeim upplýsingum sem þarf að afla án þess að það fari í gegnum marga milliliði eins og raunin er oft með stærri fyrirtæki. Vegna okkar sérþekkingar og áratuga reynslu í sölu og þjónustu við Mitsubishi vélar höfum við verið að bjóða Mitsubishi vélar sem hafa einnig gefið mjög góða raun sem traustur valkostur fyrir varaafl og tryggja þar með að orkuöryggi viðskiptavina sé alltaf í fyrirrúmi,“ segir Hjalti og bendir jafnframt á að vegna umboðsins fyrir Mitsubishi Diesel á Íslandi hafi MD Vélar einnig greiðan aðgang að öllum varahlutum og geti því veitt alhliða viðhaldsþjónustu. Þessi sérhæfing og reynsla hafi styrkt stöðu fyrirtækisins á markaðnum og gert kleift að bjóða framúrskarandi ráðgjöf og tæknilega lausnir.
Rafstöðvar fyrir fjarskipti
AX hannar einnig rafstöðvar fyrir flest stærstu fjarskiptafyrirtæki í heimi en þeirra stærsti markaður er í Svíþjóð þar sem settar hafa verið upp yfir 300 rafstöðvar fyrir fjarskiptafyrirtæki. Fjarskiptainnviðir þurfa órofa rafmagn til að tryggja samfellt samband fyrir neytendur og fyrirtæki. Með nýjustu tæknilausnum geta þessar rafstöðvar virkað sem fjarskiptamiðstöðvar þar sem þær eru búnar fjarvöktunarkerfi sem notar 5G eða Ethernettengingu. Þetta gerir kleift að fylgjast með orkuframboði og tryggir skjót viðbrögð ef bilun verður.
Rafstöðvarnar eru með allt að 3.000 lítra eldsneytistanki sem gerir kleift að halda þeim gangandi samfellt í allt að einn mánuð án þess að þurfa áfyllingu. Auk þess er tryggt að þær eru útbúnar með viðvörunarkerfi sem tryggir hámarks öryggi gegn skemmdarverkum og eldsneytisþjófnaði.
Þýsk gæðaframleiðsla tryggir gæðin
Allar raforkulausnir sem MD Vélar bjóða eru framleiddar í Þýskalandi og í rafstöðvum fyrir fjarskipti eru notaðar DEUTZ Dieselvélar sem eru hannaðar fyrir langan endingartíma og lágmarks viðhald. „Áreiðanleiki og ending eru lykilatriði í krefjandi aðstæðum og við getum tryggt viðskiptavinum okkar hágæða hljóðlátar lausnir með langan endingartíma sem standast strangar kröfur. Hvort sem um ræðir fiskeldi, gagnaver eða fjarskipti þá bjóðum við orkulausnir sem halda rekstrinum gangandi, jafnvel við erfiðustu aðstæður,“ segir Hjalti Sigfússon.